Graphics of books, a laptop, and smart phone

Galdramáttur orðanna

Upp á síðkastið hefur útbreiðsla orðalagsins „manngerð hamfarahlýnun“ náð síaukinni útbreiðslu í íslensku máli, frekar en til dæmis að talað sé á mildari hátt um „loftslagsbreytingar“ eða „hlýnun jarðar“. Sömu tilhneigingar gætir í enskri umræðu um loftslagsmál, þar sem í síauknum mæli er talað um „climate catastrophe“.

Orðnotkun er auðvitað aldrei hlutlaus og tungumálið áhrifamikið verkfæri sem höfðar ekki síður til hjarta en heila. Í nýlegri nýlegri bandarískri rannsókn kemur til að mynda fram að fólk sýni afar væg, ef nokkur, tilfinningaviðbrögð við orðalaginu „hlýnun jarðar“. Þátttakendur í rannsókninni sýndu miklu sterkari viðbrögð við „hættuástandi í loftslagsmálum“ (e. climate crisis) og „eyðileggingu náttúrunnar“ (e. environmental destruction).

Orðaval fjölmiðla, fyrirtækja, menntastofnanna og annarra leiðandi afla í mennsku vitsmunalífi hefur auðvitað afdrifarík og lúmsk áhrif á hegðun okkar. Yves Chouinard, stofnandi Patagonia-vörumerkisins, telur til að mynda að í stað þess að nota einlægt orðið „sjálfbærni“ væri okkur hollara að tala oftar um „ábyrgð“. Ábyrgðarfull nýting á auðlindum jarðar felur vitaskuld í sér sjálfbæra nýtingu en hefur jafnframt víðari skírskotun.

Að velja af kostgæfni orð til að lýsa heiminum – og að eiga sér yfirhöfuð ríkan orðaforða til að lýsa honum – færir okkur líka nær fyrirbærum jarðar. Hvert væri til að mynda samband okkar við trén ef við ættum ekkert orð til að lýsa þeim? Eftir því sem við öðlumst frekari þekkingu á ólíkum trjátegundum, lærum við betur að skilja hegðun þeirra og veruleika. 

Ef við hins vegar gloprum smám saman niður orðaforðanum yfir hinn náttúrulega heim er hætt við að við fjarlægumst hann sífellt meira og einangrumst í því manngerða.

Eru orðabækurnar okkar teknar að enduspegla fátæklegri náttúru?

Í því samhengi er kvíðvænlegt að hugsa til nokkurs sem kemur fram í bók breska rithöfundarins Roberts MacFarlane, Landmarks. Í formála lýsir hann endurútgáfu enskrar orðabókar handa börnum, Oxford Junior Dictionary. Ráðist hafði verið í róttækar breytingar á orðaforða nýju útgáfunnar: orð sem tengdust náttúrunni voru miskunnarlaust skorin niður og í staðinn sett inn orð úr tölvu- og tæknimáli og poppmenningu. 

Meðal orða, sem tekin voru út, voru sáraeinföld orð á borð við sóley (e. buttercup), fífill (e. dandelion) og burkni (e. fern). Í staðinn voru sett inn orð á borð við viðhengi (e. attachment), dægurstjarna (e. celebrity) og talskilaboð (e. voice-mail). Einn ritstjóra bókarinnar gaf þær skýringar að ný útgáfa orðabókarinnar þyrfti að endurspegla betur daglegan veruleika nútímabarna, sem eyða sífellt minni tíma úti í náttúrunni og meiri tíma við skjáinn. Gott og vel. En læra börn ekki líka af því sem að þeim er haldið?

Sóleyjarnar detta út úr orðabókinni.

Ótti hlýst oftar en ekki af vanþekkingu og ef við týnum niður orðaforða yfir fyrirbæri náttúrunnar myndast rof á milli hins manngerða og þess náttúrulega. Raunar er hætt við að margt sem fellur utan þess tungutaks, sem okkur er tamt, verði okkur ósýnilegt. 

Hvaða áhrif hefur það til að mynda á heimssýn barna ef orðaforðinn yfir plöntur jarðar verður sífellt fátæklegri? Hætta komandi kynslóðir einfaldlega að sjá og skynja fjölbreytileika og auðlegð plönturíkisins?

Við óttumst það sem við eigum ekki orð yfir

Þróunarinnar gætir nú þegar í daglegu lífi okkar og einskorðast ekki við íslenskuna. Um daginn dvaldist ég á eyju við Japansstrendur og svaf þar í gistiheimili með örþunnum veggjum svo að hljóðbært var á milli herbergja; ég nam sérhvert þrusk og hrotu annarra gesta. Í næsta herbergi voru tvær unglingsstelpur sem nutu þess út í ystu æsar að láta skrjáfa í nammiumbúðum úr plasti og hlusta á popptónlist. Skyndilega varð hins vegar eitthvert hlé á gleði þeirra og þær ráku báðar upp skerandi öskur. Þær hoppuðu og spörkuðu, sveifluðu hnefum og tröðkuðu – gistiheimilið lék á reiðiskjálfi – og komu loks hlaupandi eftir göngunum með hjörtun sín tvö í buxunum. Ég óttaðist að eitthvað hræðilegt hefði gerst og steig til móts við þær. Enskan hjá þeim var nokkuð takmörkuð en mér skildist á þeim að í herberginu þeirra væri leðurbaka – eða í hið minnsta „dýr sem líktist leðurblöku“.

Ég steig inn í herbergið þeirra með vöðvana þanda, tilbúinn að kljást við leðurblökuna. En… við nánari athugun reyndist vera um fiðrildi að ræða. Veru sem er beinlínis líkamlega ófær um að valda manneskju skaða. (Hvað ætti fiðrildið svo sem að gera, kitla okkur til dauða með vængjunum?) Ég muldraði eitthvað um að fiðrildi væru skaðlaus og að við ættum að vera góð við þau en gafst fljótt upp því ég talaði fyrir daufum eyrum. Af einhverjum ástæðum hefur þetta litla atvik setið í mér; að geta ekki greint leðurblöku frá fiðrildi.

Still image of a flying bat

Margar fiðrildategundir eru í mikilli útrýmingarhættu. Vísindamenn óttast til að mynda að kóngafiðrildið glæsilega muni hverfa á næstu tíu til fimmtán árum; stofninum hefur nú þegar hnignað um 80% á síðasta áratug eða svo.

Við óttumst það sem við eigum ekki orð yfir.

Vandinn við að hugsa í vandamálum

Notkunin á orðinu „loftslagsvandi“ felur einnig í sér vissa hættu. Þegar orðið vandi, eða vandamál, er notað til að lýsa tiltekinni stöðu mála, ganga flestir út frá því að til sé lausn – eða lausnir – sem hugsanlega er enn utan seilingar hugarflugs okkar en þó einhvers staðar á sveimi í kosmósinum. Við loftslagsvandanum er hins vegar engin ein galdralausn. Loftslagið er síbreytilegt og mun halda áfram að taka breytingum næstu áratugina vegna alls þess koltvísýrings sem við höfum nú þegar losað út í andrúmsloftið. 

Í stað þess að leita að einni galdralausn, sem kemur okkur út úr vandanum, þurfum við að ala undir hugarfarsbreytingu sem breytir ekki aðeins því sem við gerum heldur hvernig við erum. Hvernig við hugsum og lifum; hvernig við njótum tilverunnar. Þá koma svörin af sjálfu sér. 

Tungumálið er galdratæki og skynsamleg notkun þess fleytir okkur langleiðina í átt að bættum lífsháttum því að í orðnotkuninni (og orðaforða okkar) mótast hugarfarið – og þar með samfélagið.

Hvernig líkaði þér þessi grein? Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu Umhverfistíðindi Klappa, fréttabréf fullt af fróðlegu efni um loftslags- og umhverfismál, sent beint í innhólfið þitt einu sinni í mánuði. 

DEILDU ÞESSARI GREIN

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on print
Share on email

Eldri greinar

Close Menu