VOtlendi

Færum land í átt til fyrra horfs og sköpum lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti.

votlendi

Votlendissjóðurinn vinnur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga. Með endurheimt votlendis er leitast við að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti. Skilyrði þess er að vatnsbúskapur á svæðunum verði í líkingu við það sem áður var. Með hækkun vatnsstöðu stöðvast rotnun jarðvegs og losun gróðurhúsalofttegunda að mestu og binding kolefnis hefst að nýju. 

Verð
Að stöðva losun á 1 tonni af gróðurhúsalofttegundum með endurheimt votlendis kostar kr. 5.000. Fyrir kr. 500.000 er þannig hægt að stöðva árlega losun á 100 tonnum af gróðurhúsalofttegundum. Kostnaður við endurheimt á 1 tonni með stórkaupendaleið er kr. 1.666.

Greiði kaupandi kr. 300.000 eða endurheimti sambærilegt magn fær hann að nota merki sjóðsins í markaðslegum tilgangi.

Leiðirnar eru fjórar:

Votlendissjóðsleiðin hentar þeim sem vilja setja fé í endurheimt votlendis og láta Votlendissjóðinn um að endurheimta það. Þeir sem leggja til fjármagn fá staðfestingu á samfélagslegri ábyrgð sinni og geta skráð það magn gróðurhúsalofttegunda sem þeir hindra losun á í loftslagsbókhald sitt. Dæmi: Fyrirtæki kaupir 100 tonn fyrir 500.000 kr. eða einstaklingur kaupir 2 tonn fyrir 10.000 kr. og kolefnisjafnar þannig flugferðir ársins. Votlendissjóðurinn endurheimtir umbeðið magn, sér um framkvæmd og greiðir kostnað við hana. Kaupendur geta nýtt árangurinn í loftslagsbókhald sitt.

Landeigendaleiðin hentar landeigendum sem eiga framræst land og vilja sýna samfélagslega ábyrgð í loftslagsmálum í verki. Þessi leið hentar t.d. bændum sem vilja kolefnisjafna reksturinn sem og sveitarfélögum sem vilja vinna endurheimt á eigin vegum og eiga tæki til þess.

Dæmi: Eigandi ferðaþjónustufyrirtækis á framræst land sem er ekki í neinni notkun. Ferðaþjónustuaðilinn endurheimtir landið á eigin kostnað og fær ávinninginn skráðan á sig og nýtir hann í markaðslegum tilgangi og til að sýna fram á samfélagslega ábyrgð. Votlendissjóðurinn hefur milligöngu um hagkvæmt verð á olíu sem notuð er við framkvæmdina.

Fósturlandsleiðin hentar m.a. þeim sem vilja taka að sér endurheimt votlendis en eiga ekki land sjálfir. Votlendissjóðurinn er þá milliliður milli landeiganda og þess framkvæmdaraðila sem annast endurheimtina. Þessi leið hentar m.a. félagasamtökum eða verktakafyrirtækjum sem vilja endurheimta skilgreint svæði og sýna þar með samfélagslega ábyrgð í verki. Árangurinn er skráður á þann sem tekur landið í fóstur og getur hann fært árangurinn til bókar í loftslagsbókhald sitt.

Dæmi: Jarðvinnuverktaki sem á vinnuvélar og er með mannskap fær aðgang að landssvæði með milligöngu Votlendissjóðsins til að endurheimta. Ávinningurinn er allur skráður á jarðvinnuverktakann sem nýtir hann til að sýna fram á kolefnisjöfnun og samfélagslega ábyrgð. Kostnaður greiðist af verktakanum en Votlendissjóðurinn hefur milligöngu um hagkvæmt verð á olíu sem notuð er við framkvæmdina.

Stórkaupendaleiðin er valkvæð og kostnaðarlega hagkvæm fyrir þá sem óska eftir að endurheimta meira en 1.000 tonn af CO2 ígildum eða leggja stórar upphæðir (5 milljónir kr. eða meira) inn í sjóðinn á þremur árum. Stórkaupendum stendur til boða að fá þrefaldan ávinning skráðan í loftslagsbókhald sitt. Kostnaður á hvert tonn verður þá 1.666 krónur. Semja þarf við Votlendissjóðinn um þessa leið.

Dæmi:  Stórkaupandi með mikla losun semur við Votlendissjóðinn um að kaupa fyrir 6 milljónir á þremur árum. Hann greiðir fyrir það 2 milljónir kr. á ári og getur því skráð í loftslagsbókhald sitt 3.600 tonn eða 1.200 tonn á ári í þrjú ár.

Endurheimt votlendi á Bessastöðum

Árið 2019 stendur til að endurheimta framræst votlendi á Bessastöðum. Það á vel við því forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er verndari Votlendissjóðsins.

Fagráð Votlendissjóðsins hefur þegar útbúið framkvæmdaráætlun sem unnið verður eftir. Skurðir sem á að fylla upp í að fullu eru rúmlega 400 metrar að lengd. Lengsti skurðurinn nær út í sjó og þar á að útbúa grjótflór. Reiknað er með að framkvæmdin stöðvi losun á 34 tonnum af gróðurhúsalofttegundum á hverju ári.

Fagráð

Fagráð Votlendissjóðsins er samsett af fimm einstaklingum sem hver um sig hefur sérþekkingu sem nýtist við starf ráðsins. Í fagráðinu eru fulltrúar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landgræðslunnar, landslagsarkitekta, Háskóla Íslands og að auki er þar sérfræðingur í jarðvegsframkvæmdum.

Þegar landeigandi vill endurheimta landsvæði er svæðið merkt út á korti og síðan er lagt mat á hvort það henti til endurheimtar. Horft er m.a. til eftirfarandi atriða:

  1. Er framræsta svæðið á tiltölulega flötu landi?
  2. Er ástæða til að ætla, t.d. út frá gróðri eða gróðurkorti Náttúrufræðistofnunar, skurðakorti í kortavefsjá Landbúnaðarháskólans og örnefnakorti LMÍ að hér gæti verið um að ræða framræst votlendi?
  3. Hver er vatnsstaðan í skurðum almennt?
  4. Er gott aðgengi vinnuvéla að svæðinu?

Svæðið er skoðað, myndir teknar af aðstæðum, landslagi og jarðvegur er greindur. Einnig eru metin áhrif á nærliggjandi mannvirki og landareignir annarra.

Fagráðið úrskurðar hvort gagnlegt sé að fara í endurheimt. Það útbýr í kjölfarið verklýsingu og teiknar inn á ljósmyndir hvar stíflur, tjarnir og uppfyllingar eiga að vera. Það staðfestir einnig flatarmál landsins sem á að endurheimta á loftmynd og reiknar út áætlaða losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum af CO2 ígildum út frá viðmiðunartölu IPCC um stöðvun á 20 tonnum af CO2 ígildum á hektara á ári.

Gerður er skriflegur samningur við landeiganda um endurheimtina. Votlendissjóðurinn upplýsir viðkomandi sveitarfélag og ef ástæða er til er, nágranna um hugsanleg áhrif á landareign þeirra og fær skriflegt leyfi þeirra. Ef þörf er á er sótt um framkvæmdaleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi.

 

Framkvæmdir hefjast og verkið er unnið. Fagráð fer yfir ljósmyndir og staðfestir að unnið hafi verið samkvæmt leiðbeiningum. Ef ástæða þykir til fer fulltrúi Votlendissjóðsins á staðinn og leggur mat á framkvæmdirnar. Votlendissjóðurinn ber ábyrgð á því að fylgst sé með jörðinni í 3 ár í góðu samstarfi við landeigendur og aðra sem leggja verkinu lið.

Um Votlendissjóð

Votlendissjóðurinn vinnur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga. Með endurheimt votlendis er leitast við að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti. Skilyrði þess er að vatnsbúskapur á svæðunum verði í líkingu við það sem áður var. Með hækkun vatnsstöðu stöðvast rotnun jarðvegs og losun gróðurhúsalofttegunda að mestu og binding kolefnis hefst að nýju.

Close Menu