Á spjalli við Klappir: Hildur Knútsdóttir

Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, var nýlega skipuð formaður stjórnar loftslagssjóðs. Við hjá Klöppum plötuðum hana í stutt spjall um störf hennar á þessu sviði og það hvernig vitundin um loftslagsmálin mótar alla tilveru hennar.

Sæl og blessuð, Hildur, og hjartanlega til hamingju með formannsstöðuna í loftslagssjóði.

Hvað er loftslagssjóður, geturðu skýrt okkur stuttlega frá því?

Hildur Knútsdóttir: Sæll vertu og takk! Það liggja ný lög fyrir Alþingi einmitt núna um loftslagsmál og sjóðinn, vonandi verða þau samþykkt á allra næstu dögum. En Umhverfisráðuneytið ritar um sjóðinn:

„Hlutverk sjóðsins er að styðja við verkefni er stuðlað geta að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og aukinni þekkingu almennings á loftslagsbreytingum af mannavöldum, afleiðingum þeirra og mögulegum aðgerðum til að sporna við þeim.“

Málið er sumsé enn í vinnslu, en þegar öll umgjörðin um sjóðinn verður tilbúin verður þetta rækilega kynnt.

Hvernig mótast störf þín, sem rithöfundur, aðgerðasinni og (stundum) stjórnmálakona, af manngerðri hamfarahlýnun? Hefur þróunin áhrif á hvernig, og um hvað, þú skrifar og hugsar?

HK: Ég myndi segja að allt sem ég geri mótist að einhverju leyti af manngerðri hamfarahlýnun. Ég hugsa um loftslagsbreytingar ábyggilega hundrað sinnum á dag, þær eru faktor í eiginlega öllu sem ég geri; hvernig ég ferðast, hvað ég kaupi mér, hvað ég borða og hvernig ég kýs að lifa lífinu. Ég var til dæmis að drekka bjór um daginn með vinum mínum sem ég kynntist í loftslagskreðsum. Við vorum að tala um fasteignir (eins og fólk á fertugsaldri endar einhvernveginn alltaf á að gera þegar það hittist) og við komumst til dæmis að því að öll okkar skoðum hæð yfir sjávarmáli þegar við pælum í að fjárfesta í framtíðarhúsnæði!

Þetta er kannski svolítið einsog hefur verið sagt um kynjagleraugun, þegar þau eru komin upp á nefið þá er eiginlega ekki hægt að taka þau niður aftur. Þannig að ég er ósjálfrátt alltaf að pæla í vistspori, flutningalengdum og umhverfisáhrifum alls sem ég geri/kaupi. Alveg sama hvað það er. Þetta mótar allt og litar allt. Enda eru loftslagsmál ekki eitthvað sem er hægt að taka út fyrir sviga og skoða sem einn hlut eða eitt fyrirbæri. Þau hafa áhrif á allt og því þarf heildræna hugsun bæði til að hugsa um vandamálið og svo líka til að reyna að díla við það.

Það er hárrétt. Hvað gerirðu sem manneskja, í daglegu lífi, til að reyna að breiða út vitund um umhverfismál og reyna að bæta lifnaðarhætti okkar?

HK: Þegar ég áttaði mig á umfangi og alvarleika vandans þá lamaðist ég svolítið. Eldri dóttir mín var nýfædd og eftir á að hyggja fékk ég kannski einhverskonar áfall – við sjokkið við að vera nýbúin að fæða pínulítið barn inn í heim sem verður svo allt öðruvísi en ég hélt. En svo fór ég að hugsa hvað ég gæti gert. Og ég – sem hafði aldrei ætlað mér að vera trjáfaðmandi aktívisti (ég hafði aldrei nennt að mæta í göngur, hvað þá skipuleggja þær) – var allt í einu farin að skipuleggja loftslagsgöngur, mála á skilti og þruma í gjallarhorn.

Svo ákvað ég að fara í framboð til Alþingis árið 2016. Það var ekki vegna þess að mig langaði til að verða stjórnmálamaður – þótt ég hafi alltaf verið mjög pólitísk þá hef ég núll áhuga á flokkastarfi og að vera inni á Alþingi – en ég bara þoldi ekki tilhugsunina um að það yrðu enn aðrar kosningar þar sem ekkert væri talað um loftslagsmál. Þannig að ég fór í framboð bara með það markmið að ræða loftslagsbreytingar og koma þeim í umræðuna. Svo munaði víst bara þrjátíu atkvæðum á að ég hefði endað inni á Alþingi – en þér að segja þá er ég bara ógeðslega fegin að það gerðist ekki, því ég vil miklu frekar skrifa bækur en að sitja inni í þingsal!

En ég er rosa mikið búin að pæla í þessu, hvar sé best að hafa áhrif, innan kerfisins eða utan. Sem Alþingismaður eða sem rithöfundur. Og hef svosem ekki komist að neinni niðurstöðu. Þannig að ég beiti bara þrýstingi þar sem ég get, ég skipulegg stundum mótmæli, mæti á öll mótmæli sem ég get, tala um loftslagsbreytingar, skrifa um þær og segi aldrei nei við viðtölum um loftslagsmál, þótt mig langi kannski ekki að fara í þau.

Í daglega lífinu þá keyri ég ekki bíl, ég labba eða tek strætó, nota ekki snyrtivörur, kaupi mér eiginlega aldrei neitt dót og yfirleitt bara notuð föt. Ég kaupi ekki dýraafurðir – ég er svona 98% vegan, en stundum borða ég ost og egg ef það myndi annars enda í ruslinu, því matarsóun er annar vinkill sem skiptir miklu máli. En það er svo langt síðan ég hætti að borða kjöt að mér finnst það ekki lengur vera matur og tilhugsunin um að borða það finnst mér bara viðbjóður. Ég er ekki alveg hætt að flúga en ég reyni að fara sjaldan og vera þá lengur og velja vel ferðirnar sem ég fer í. Og svo kolefnisjafna ég allt í drasl (mæli með atmosfair.de!) og styrki fjöldann allan af hreyfingum sem vinna að loftslagmálum í fullt af löndum.

Og ég vil taka fram að mér finnst engar fórnir fylgja þessum lífsstíl (nema ókei, jú, flugið, það er erfitt). En allt hitt bara bætir og kætir og það er ekki einsog ég lifi neinu meinlætalífi. Ég kaupi bara íslenskan bjór frekar en innfluttan og er hætt að drekka rauðvín frá Argentínu og Nýja-Sjálandi og drekk franskt og ítalskt rauðvín í staðinn.

Hvernig sérðu Ísland fyrir þér árið 2050? Stefnun við í rétta eða ranga átt?

HK: Við stefnum enn í kolranga átt, en það eru þó allavega farnar að sjást einhverjar blikur á lofti um að við séum farin að hugsa um að rétta af kúrsinn. Hvort það gerist nógu hratt er svo önnur spurning. Það hvernig er verið að tala um loftslagsmál núna, t.d. umræðan um að lýsa yfir neyðarástandi, hefði verið óhugsandi fyrir tveimur árum, jafnvel bara einu. Ég vona bara að orðum fylgi aðgerðir.

En auðvitað er ómögulegt að svara þessari spurningu, það er ekki hægt að spá fyrir um framtíðina og það eru svo margar breytur og margir óvissuþættir. Ég ætla allavega að vona að við á Íslandi ákveðum að lifa með reisn og sýna samkennd og manngæsku. Ég vona að við opnum landamæri, deilum auðlindum okkar og högum okkur almennilega frekar en að verða hrædd og pakka í vörn þegar loftslagið heldur áfram að raskast og flóttamannastraumurinn byrjar af alvöru á næstu áratugum.

Ísland árið 2050 mun allavega vera gjörólíkt Íslandi í dag. Neyslan verður mun minni, annað hvort afþví við minnkum neyslu núna, minnkum eftirspurnina og afstýrum hörmungum, eða við minnkun ekki neyslu núna, allt fer til fjandans og við köttum á framboðið.

En öðruvísi þarf ekki endilega að þýða verra. Stundum er það bara öðruvísi.

Ég held að öðruvísi, í þessu samhengi, gæti einmitt þýtt betra líf, ábyrgðarfyllra og meira fullnægjandi. En hvað ættu áhugasamir að lesa til að setja sig betur inn í loftslagsmálin? Á hvað ættum við að horfa (t.d. heimildarmyndir) eða hlusta (t.d. hlaðvörp)?

HK: Það er svo rosalega mikið til! Fyrir byrjendur mæli ég t.d. með öllu sem Bill McKibben hefur skrifað og Naomi Klein. The Guardian eru líka oft með mjög fínar umfjallanir. Fyrir lengra komna þá mæli ég með því að fara bara beint í IPCC-skýrslurnar.

Við lifum á tímum þar sem „gróðavænlegt þykir að láta jörðina fara til helvítis“. Hvers vegna er mannkynið svona skammsýnt og í rauninni haldið ranghugmyndum um eðli jarðar og náttúru, hvað gerðist eiginlega?

HK: Úff, erfið spurning! Og ég las alveg nokkrar sálfræðirannsóknir um þetta fyrir nokkrum árum (þetta er alveg kimi í loftslagsmálum). Niðurstaðan í þeim minnir mig að sé að dýrategundin maður virðist einhverra hluta vegna mjög klár í að leysa mjög aðkallandi vandamál sem við stöndum frammi fyrir en við eigum miklu erfiðara með að átta okkur á vandamálum í framtíðinni og gera eitthvað í þeim. Og þó við áttum okkur á þeim á einhvern abstrakt hátt þá gerum við samt ekkert í vandanum, heldur látum yfirleitt skammsýnina ráða. Þess vegna veljum við þægindi í nútímanum fram yfir framtíð barnanna okkar. Kannski er það eitthvað í þessari kapítalísku nýfrjálshyggju-gróðamenningu sem hefur klippt á tengslin við náttúruna og alið okkur svona upp eða kannski þetta bara eitthvað í eðli okkar. Sem er glatað. Við erum sumsé klár api en ekkert rosalega gáfaður.

Nú skilst mér að þú sért stödd í Frakklandi (á bókmenntahátíð?). Ég las nýlega bók um náttúrusögu Frakklands síðustu tuttugu þúsund árin. Höfundur lýsir því hvernig landbúnaðurinn þar í landi og hegðun Frakka gagnvart landinu sínu er komin langleiðina með að breyta sveitunum í eyðimerkur. Yfir stendur, eins og margir vita, útrýming skordýra; víða í Evrópu hefur þeim fækkað um 80% og þar er Frakkland engin undantekning. Afleiðingin er sú að fuglastofnar eru að hverfa, því að fæða þeirra – skordýrin – er gufuð upp. Nú erum við mennirnir einungis liður í fæðukeðju jarðar. Óumdeilanlegt er að þróunin hlýst af mannavöldum.

Manneskjur eru einkennileg blanda af gæsku og skeytingarleysi, skínandi gáfum og sláandi skammsýni og heimsku. Fæst okkar mundu til að mynda aka með börnin okkar í aftursætinu fram af kletti. Sú líking er þó nokkuð nærtæk um það sem við erum gera.

Finnst þér fólk almennt séð átta sig á þeim hörmungum sem eru að ríða yfir jörðina og að þróunin stefnir framtíðarhorfum okkar, og einkum afkomenda okkar, í tvísýnu? Höfum við það enn of gott til að geta skilið og melt hvað felst í svo ógnvekjandi staðreyndum?

HK: Ég er reyndar komin heim frá Frakklandi, ég var á nördahátíð í Épinal en var einmitt nýbúin að lesa fréttir um hrun skordýra- og fuglastofna áður en ég fór. Þessvegna gladdist ég mjög yfir öllum fuglum og flugum sem ég sá – sem var alveg slatti! Og mér fannst allt í Frakklandi vera grænt, gróið og fallegt. En ég hef náttúrulega ekki viðmiðið fyrir tuttugu árum, sem er kannski hluti af vandanum. Manneskjur lifa ekki mjög lengi, t.d. ekki miðað við tré eða hákarla, viðmið okkar um náttúruna er því annað en kynslóðanna á undan, þeim þætti kannski fátæklegt lífið í frönskum sveitum en við erum ekki vön neinu öðru. Næsta kynslóð á eftir okkur hefur svo annað viðmið og enn fátæklegra.

En nei, ég held að mjög margir átti sig ekki á hörmungunum sem við lifum (mér finnst ég á hverjum degi sjá fréttir af útdauðri tegund, flóðum, fellibyljum og aurskriðum) og komum til með að lifa. Og ég held að í raun geti enginn áttað sig fyllilega á þeim loftslagsbreytingum og hruni lífheimsins sem við stöndum frammi fyrir. Breytingarnar eru á þeim skala að ég held að ímyndunarafl okkar nái ekki utan um þær og þetta er eitthvað sem hefur aldrei gerst í manna minnum. Við höfum ekkert til að miða þær við. Við höfum eiginlega ekki orð yfir þetta.

Og það er líka það sem gerir það svo erfitt að tala um þær. Stundum heyri ég fólk segja: „Þetta er búið.“ En þá er svo erfitt að vita hvað það á við. Er það að tala um að heimurinn eins og við þekkjum hann sé „búinn“? Eða að það sé ekki hægt að stoppa loftslagsbreytingar og þær muni óumflýjanlega hafa áhrif á líf okkar? Er það að tala um útrýmingu mannsins? Eða aldauða á Jörðinni?

Oft líður mér eins og ég lifi í tvöföldum veruleika. Ég lifi í vellystingum, ég hef það fáránlega gott, en ég veit líka á hvaða braut við erum og hvað það getur þýtt fyrir börnin mín – og mig. Sálfræðingar eru farnir að tala um “pre-traumatic stress” hjá fólki sem vinnur að loftslagsmálum og ég tengi alveg þokkalega mikið við það hugtak.

Stundum þegar ég er dramatísk þá finnst mér að þetta sé eins og að vera undir einhverskonar mjög kaldhæðnislegri bölvun; að lifa eins og drottning en geta varla notið þess því maður veit hvað er líklega/mögulega í vændum.

Að lokum, ertu bjartsýn eða svartsýn? Jafnvel heilbrigð blanda af hvoru tveggja?

HK: Það fer eiginlega eftir því hvernig ég er stemmd, hvernig ég er sofin og hvar ég er í tíðahringnum. Það er margt gott að gerast í loftslagsmálum og margt til að vera vongóður yfir, en staðan er líka mjög alvarleg og allar síðustu rannsóknir virðast benda til þess að hún sé líklega alvarlegri en við héldum.

Þegar ég er mjög svartsýn þá hugga ég mig við að umbyltingar geta gerst svo hratt þegar þær gerast og það er yfirleitt ómögulegt að sjá þær fyrir.

En ég veit ekki hvort hugtök eins og bjartsýni og svartsýni séu endilega gagnleg, ekki frekar en von og vonleysi. Ég hef komist að því undanfarið að ég er kannski ekki endilega bara haldin loftslagskvíða heldur líka djúpstæðri sorg yfir aðstæðunum. Mér finnst hrikalegt að lifa þessa tíma: Við búum við allsnægir á meðan náttúran er bókstaflega að deyja í kringum okkur. Þannig að ég hef svona verið að reyna að minna mig á að það er í lagi að leyfa sér að syrgja líka. Maður þarf bara að passa að lamast ekki frammi fyrir vandanum. Því þetta geta líka verið tímarnir þegar allt glataðist næstum því en okkur tókst að bjarga því sem bjargað varð. Og það eru spennandi tímar að lifa. En einsog Greta Thunberg sagði svo eftirminnilega: Við þurfum ekki von, við þurfum aðgerðir. Með aðgerðum kemur vonin.

Ég hef líka rekið mig á það að ég verð bjartsýnni þegar ég tek mig til og reyni að gera eitthvað í málunum. Því það er ekkert jafn lamandi og að sitja einn heima með áhyggjur og þora ekki að tala um þær. Þá er nú betra að fara á mótmæli og þruma þær í gjallarhorn – sem er einmitt það sem íslenskir krakkar hafa verið að gera á hverjum föstudegi kl. 12 á Austurvelli. Og ég mæli með því að fara og hlusta á það sem þau hafa að segja. Það er stundum sorglegt að heyra hvað þau eru hrædd og hafa miklar áhyggjur (ég veit ekki hversu oft ég hef tárast yfir ræðunum þar), en það er líka svo frábært að sjá hvað þau eru ákveðin í að berjast fyrir framtíð sinni. Við megum bara ekki láta þau ein um það.

Þau eru ekki búin að gefast upp. Og það væri katastrófa ef þau mótmæla og ekkert breytist. Því hvaða skilaboð erum við þá að senda þeim?

Þau skilaboð að þau, raddir þeirra og framtíðarhorfur, skipti engu máli. Það má aldrei gerast. Takk kærlega fyrir spjallið, Hildur!

3. júní, 2019

sverrir