Á spjalli við Klappir: Hlédís Sigurðardóttir

Hlédís Sigurðardóttir er verkefnastjóri samfélagsábyrgðar hjá Arion banka. Hún hefur verið meðal þeirra sem eru leiðandi innan bankans í því að innleiða umhverfisvænan rekstur, sem felst meðal annars í því að draga úr plast- og pappírsnotkun, rafvæða hluta bílaflotans, efla skógrækt í landinu og minnka sóun í mötuneyti bankans.

Sæl og blessuð, kæra Hlédís, og kærar þakkir fyrir að setjast á spjall við Klappir.

Segðu mér fyrst, hvers vegna er mikilvægt að bankastofnun á borð við Arion banka sé til fyrirmyndar í umhverfismálum?

Hlédís Sigurðardóttir: Sæll og blessaður Sverrir, takk fyrir að velja mig sem viðmælanda.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að jafn stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og Arion banki sé í fararbroddi varðandi umhverfismál vegna þess að við höfum svo mikil áhrif út í samfélagið. Hér starfa um 800 manns og við erum með tugþúsundir viðskiptavina. Það að við látum þessi mál okkur varða, og ekki síður að við hvetjum hvert annað og viðskiptavini okkar áfram til að gera betur, hefur því mikil áhrif, eins konar jákvæð snjóboltaáhrif út í samfélagið.

Umhverfisvænn rekstur er auðvitað mjög mikilvægur en ég tel að fjáramálafyrirtæki geti þó haft mestu áhrifin í gegnum grænar lánveitingar og fjárfestingar sem fara hratt vaxandi í heiminum. Á næstu árum og áratugum mun lífstíll okkar þurfa að breytast svo um munar og þá er eins gott að bankar styðji við breytingarnar, s.s. í tengslum við orkuskipti og græna innviðauppbyggingu því það þarf jú að fjármagna þetta allt saman. Ég trúi því í raun að fjármálafyrirtæki séu einn af lykilaðilunum til að nauðsynleg umbreyting geti átt sér stað. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir, manngerð hamfarahlýnun, er svo gríðarlega stórt að við þurfum öll að vinna saman að því að leysa það.

Nýlega undirritaði Arion banki samning við Kolvið um að kolefnisbinda starfsemi bankans. Hvernig kom það til og hvað felst í því framtaki?

HS: Arion banki hefur frá stofnun bankans stutt vel við skógrækt í gegnum Skógræktarfélag Íslands. Við höfum frá árinu 2015 innleitt öflugt umhverfiskerfi frá Klöppum sem heldur utan um kolefnisbókhaldið okkar. Það góða við svona kerfi er að nú getum við séð með mikilli vissu umhverfisáhrifin af daglegri starfsemi. Kolefnisjöfnun í gegnum Kolvið er í raun rökrétt framhald af þessari vinnu, við förum í mótvægisaðgerðir gegn þeirri losun sem mæld hefur verið og svo höldum við áfram með markvissum aðgerðum að draga enn frekar úr losuninni.

Mótvægisaðgerðir á borð við skógrækt til að kolefnisjafna fela samt ekki í sér neina skyndilausn því það tekur að öllum líkindum um sextíu ár að kolefnisjafna hvert rekstrarár með skógrækt. Sextíu ár eru samt í raun ótrúlega stuttur tími í stóra samhenginu og mikilvægt að horfa til framtíðar. Það sem við gerum núna í baráttunni við hlýnun jarðar á eftir að skila sér margfalt til baka. En ef við klúðrum þessu þá verður því miður ekki aftur snúið.

Geturðu nefnt mér fleiri dæmi um hvernig þið leitist við að minnka fótspor bankans og draga úr sóun, til að mynda í mötuneytinu í höfuðstöðvunum?

HS: Já, það get ég svo sannarlega. Fyrst þú nefnir mötuneytið sérstaklega þá hefur starfsfólkið þar, með Alfreð kokk í fararbroddi, staðið sig gríðarlega vel í að draga úr matarsóun. Hér er allt sem til fellur af diskum starfsfólks mælt daglega og niðurstöðurnar hafðar sýnilegar. Mikil áhersla er á að nýta allt hráefni eins vel og hægt er í eldamennskunni og það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað starfsfólk eldhússins er hugmyndaríkt þegar kemur að nýtingu. Samið hefur verið við fjölda birgja um að tryggja að aðföng berist í fjölnota bökkum í stað einnota plastumbúða og að sjálfsögðu er allt flokkað. Fyrir okkur sem borðum ekki kjöt þá er alltaf grænmetisréttur á boðstólum ef kjöt er í matinn. Það er því einfalt að minnka kolefnissporið sitt og velja grænt.

Búið er að innleiða sérstakan kælibúnað í höfuðstöðvum fyrir fjölnota vatnsflöskur úr gleri og við erum steinhætt að kaupa vatn í plastflöskum fyrir fundi. Stöðugt er leitast við að nota sem mest fjölnota en við erum með lífniðurbrjótanlegar umbúðir þar sem því hefur ekki enn verið komið við, sem sagt umbúðir sem brotna niður í moltugerð.

Svo höfum við rafvætt hluta af bílaflotanum okkar, bætt sorpflokkun og hvatt starfsfólk til að sóa minna og hafa umhverfismálin að leiðarljósi. Eins bjóðum við reglulega upp á fræðslu fyrir starfsfólk um umhverfismál. Viðskiptavinir fá svo afslátt af lántökugjöldum við kaup á vistvænum bílum. Þetta eru svona nokkur dæmi en við erum stöðugt að leitast við gera betur og þessari vegferð er hvergi nærri lokið.

Hefurðu sjálf alltaf verið umhverfissinni? Eða varð einhver vendipunktur hjá þér?

HS: Ég man eiginlega ekki eftir sjálfri mér öðruvísi en að umhverfismál skipti mig máli. Ég hafði miklar áhyggjur af ósonlaginu og dýrum í útrýmingarhættu þegar ég var barn og ég skildi ekki af hverju fullorðna fólkið gerði ekki meira til að vernda náttúruna. Ég skil það í rauninni ekki enn.

Síðan komu unglingsárin og þá lá mér ekkert á að fá bílpróf og fannst strætó hinn fullkomni fararskjóti. Ég gekk líka mikið í notuðum fötum á þeim tíma og hætti að borða rautt kjöt í tilraunarskyni. Svo kom að því að ég fékk mér bílpróf og ég hef því miður vanist einkabílnum aðeins of vel en tilraunin til að hætta kjötáti stendur þó enn yfir. Ég hef ekki verið nógu dugleg að kaupa notuð föt síðustu árin en ég kaupi gjarnan notuð húsgögn. Ég passa mig samt á því að kaupa færri og vandaðri flíkur en ég var farin að gera á tímabili og kaupi helst föt sem passa við öll tilefni, en ég get alveg örugglega gert betur þar.

En varðandi loftslagsmálin þá varð ákveðinn vendipunktur hjá mér fyrir um það bil 3-4 árum þegar umræðan um þennan gríðarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir fór að verða háværari og vísindamenn náðu loks eyrum almennings. Þá eiginlega runnu á mig tvær grímur því í stað þess að gruna að ég væri mögulega bara með einhvern innbyggðan umhverfiskvíða þá birtust hverjar rannsóknirnar á fætur annarri sem staðfestu að ef við breytum ekki framleiðslu- og lifnaðarháttum okkar hið snarasta þá sjáum við fram á hamfarir. Það er ansi erfitt að ætla að leiða þessar rannsóknir og raddir vísindamanna hjá sér. Ég á þrjá yndislega drengi og óska þess auðvitað heitast að þeir eigi sér bjarta framtíð og sömuleiðis mögulegir afkomendur þeirra. Þannig að það er engin spurning að umhverfismálin eru eitt mikilvægasta málefni samtímans.

Hvað gerirðu sem manneskja, í daglegu lífi, til að reyna að breiða út vitund um umhverfismál og reyna að bæta lifnaðarhætti okkar (ef nokkuð)?

HS: Ég er svo heppin að vinna á vinnustað þar sem umræðan um umhverfismál er sívaxandi og fólk vill stöðugt gera betur í þeim efnum. Eitt af hlutverkum mínum er að efla þekkingu starfsfólks Arion banka á umhverfismálunum og hvetja það áfram bæði heimafyrir og í starfi. Ég held að ég sé svei mér þá óþreytandi í að tala um og pæla í umhverfismálunum og hef gaman að því að vekja fólk til umhugsunar. Vonandi næ ég að hvetja einhverja áfram.

Heima erum við fjölskyldan að vinna að því að flokka sem mest, minnka einnota plastnotkun og í raun bara forðast allt sem er einnota, draga úr matarsóun, kaupa Svansvottaðar vörur og hreinlega kaupa minna af alls kyns dóti og drasli. Fimm ára sonur minn er helsta hvatning mín því hann hefur frá fyrstu tíð því verið ótrúlega nægjusamur og lítið fyrir óþarfa. Stundum þegar ég ætla að kaupa eitthvað nýtt spyr hann mig: ,,Mamma, er þetta nauðsynlegt?“ eða afþakkar hluti og segir. ,,Nei, takk, ég á nóg.“ Hann tínir líka upp allt plast sem hann sér utandyra og flokkar samviskusamlega og það skemmtilegasta sem hann veit er að föndra úr gömlu dóti og drasli sem hann lítur á sem gersemar. Þetta kemur alveg beint frá hjartanu og minnir mig á að meira er ekki alltaf betra.

Ég er með alveg svakalegt samviskubit yfir flugi fyrir hönd fjölskyldunnar. Við hreinlega elskum að ferðast og þá ekki síst að fara til útlanda þó að við förum nú ekki margar ferðir á ári. Við fjölskyldan ætlum að kolefnisjafna flugið okkar fyrir árið 2019 og áfram þar til búið er að finna upp kolefnishlutlausa leið til að ferðast út fyrir landssteinana. Vonandi munu koma inn byltingakenndar tækninýjungar í flugbransanum sem fyrst svo að við eyjaskeggjarnir getum haldið áfram að ferðast til annarra landa.

Hvert sækir þú þér helst upplýsingar um umhverfismál?

HS: Ég finn að ég er að verða meiri og meiri nörd í þessum málum og kíki því af og til í útgefnar skýrslur og áætlanir um loftslagsmál. Annars eru það bara helst fréttir og greinar sem ég rekst á sem ég les og svo fer ég á ráðstefnur og fyrirlestra. Mér finnst frábært að Klappir séu að leggja meiri áherslu á fræðslu á mannamáli af því við við almenningur þurfum að skilja hvað vísindafólkið er að segja okkur svo við getum gripið til réttra aðgerða. Loftslagsvandinn er auðvitað ekki bara einhver skoðun eins og sumir helstu ráðamenn heimsins reyna að telja okkur trú um heldur raunverulegur vandi sem við verðum öll að horfast í augu við og bregðast við. Það er enginn annar sem kemur og reddar þessu fyrir okkur. Því miður.

Hvernig sérðu Ísland fyrir þér árið 2050? Stefnum við í rétta eða ranga átt?

HS: Þetta er svolítið erfið spurning. Mér finnst eins og hlutirnir gangi allt of hægt hér á landi en ef við Íslendingar höldum rétt á spöðunum þá verðum við að sjálfsögðu öðrum þjóðum til fyrirmyndar árið 2050 varðandi loftslagsmál. Hér munum við vonandi nota alfarið græna orkugjafa, samgöngurnar okkar verða vonandi loftslagsvænar og við verðum klárari í að deila hlutum með öðrum og nýtum hlutina líka betur.

Ég verð samt að viðurkenna að ég óttast talsvert um stöðu mála á heimsvísu. Loftslagsmálin eru þannig að það sem gerist á einu landssvæði hefur áhrif á alla. Það hvernig einstök ríki haga loftslagsmálum sínum er þess vegna ekki eitthvert einkamál þeirra. Jafnvel bjartsýnustu spár gera ráð fyrir miklum öfgum í veðurfari á næstu áratugum með tilheyrandi vanda og ég fæ alveg pínu hnút í magann þegar ég hugsa um árið 2050. Ég vil samt vera bjartsýn og vona innilega að við verðum hreinlega búin að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi eftir þrjátíu ár. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi!

Þetta ferðalag til breyttra lifnaðarhátta þarf alls ekki að vera leiðinlegt og erfitt en það mun alveg örugglega reyna á. Við þurfum fyrst og fremst að gera hlutina öðruvísi en hingað til, endurhugsa allt ferlið í kringum t.d. framleiðslu, samgöngur og neyslu frá upphafi til enda. Eða reyndar frekar í hring, byggja upp hringrásarhagkerfi þar sem allt er nýtt og endurnýtt og engu er sóað. Við þurfum að vera sniðug, hugmyndarík og frjó þegar kemur að því að breyta okkar lifnaðar-, samgöngu- og framleiðsluháttum því aðeins þannig náum við okkar markmiðum.

Orð að sönnu, kæra Hlédís. Hjartans þakkir fyrir spjallið og ég óska þér gæfu og gengis í áframhaldandi starfi á þessari braut.

12. júlí, 2019

sverrir