Á spjalli við Klappir: Ragnheiður Birgisdóttir

Ragnheiður Birgisdóttir nefnist ung blaðakona sem skrifaði nýlega afar áhugaverða ritgerð við um loftslagsbreytingabókmenntir við Háskóla Íslands: Frá afneitun til þekkingar: Um loftslagsbreytingabókmenntir, hlutverk þeirra og Flight Behavior eftir Barböru Kingsolver. Þá hefur Ragnheiður skrifað fjöldamargar greinar fyrir Stúdentablaðið og látið að sér kveða hjá Morgunblaðinu nú í sumar, og setur þá oft loftslagsmálin í brennidepil.

Segðu mér fyrst, kæra Ragnheiður, hvað eru loftslagsbreytingabókmenntir (e. climate change fiction)?

Ragnheiður Birgisdóttir: Það eru skiptar skoðanir á því enda má deila um það eins og allar aðrar skilgreiningar innan bókmenntafræðinnar. En í stuttu máli sagt þá lít ég á loftslagsbreytingabókmenntir sem allan þann skáldskap sem hefur loftslagsbreytingar til umfjöllunar. Það má deila um hve stór hluti verksins þarf að fjalla um loftslagsbreytingar en yfirleitt er átt við verk sem hafa loftslagsbreytingar sem meginumfjöllunarefni. Enska heitið, ?climate change fiction?, vísar eingöngu til texta í óbundnu máli, helst skáldsagna, en íslenska heitið gefur til kynna að fleiri form gætu heyrt til þeirrar greinar bókmennta.

Í ritgerðinni skrifarðu: „Loftslagsbreytingar eru eitt mest aðkallandi vandamálið sem mannkynið þarf að kljást við á næstu árum. Hlutverk bókmennta er meðal annars að bregðast við samtímanum og því hafa ýmsir rithöfundar tekið að skrifa um þessa miklu náttúruvá.“ Telurðu að skáldskapur geti reynst okkur gagnlegt tól til að auka vitund almennings um hamfarahlýnun, í því að sögur orka oft sterkar á almenning, tilfinningalega, en vísindaleg skrif?

RB: Eins og með svo margt annað sem tengist hamfarahlýnun þá verð ég að halda í vonina. Ég verð að halda í þá trú við getum eitthvað gagn. Svo já, ég vona það og trúi því.

Ég hefði ekki farið í háskólanám í bókmenntafræði ef ég tryði því ekki að skáldskapur væri gagnlegur. Hann getur snert við manni á hátt sem allur annar texti er ófær um. Af honum má læra ótrúlegustu hluti um manninn, samfélagið og náttúruna. Þess vegna trúi ég því að skáldskapur geti verið gagnlegur sérstaklega ef hann er nýttur samhliða öðrum tólum sem við höfum.

„Öll list er í einhverri samræðu við samfélagið og samtímann þótt sú samræða sé misáberandi,“ skrifarðu einnig. Heldurðu að í dag sé jafnvel ekki hægt að skrifa marktækan skáldskap, eða segja sögur almennt, án þess að taka loftslagsbreytingarnar inn í myndina.

RB: Ég held að það sé vel hægt að komast hjá því að taka loftslagsmál inn í myndina. Það er alltof lítið um það að skáld takist á við þetta vandasama efni, en þeim fer hægt og rólega fjölgandi sem leggja í það. Vissulega má færa rök fyrir því að hver sá sem skrifar um samfélagið sem við búum við í dag sé í raun að skrifa um loftslagsbreytingar einungis vegna þess að flest allt sem við mannkynið gerum hefur slæm áhrif á náttúruna og loftslagið. Þetta fer auðvitað líka svolítið eftir lesandanum, hann tekur við þar sem höfundurinn sleppir tökunum og ræður eftir það förinni. Það er undir honum komið að greina hvort loftslagsvánni bregður fyrir í hverju verki fyrir sig. Hann getur lesið margt í textann hvort sem höfundurinn hafði meðvitað ætlað að skrifa um það eða ekki.

Hvenær vaknaðir þú fyrst til vitundar um loftslagsmálin? Hefurðu alltaf verið umhverfissinni (eða ertu það yfirhöfuð) eða varð einhver vendipunktur hjá þér?

RB: Það er langt því frá að ég hafi alltaf verið umhverfissinni en ég á samt svolítið erfitt með að meta það hvenær ég byrjaði að velta fyrir mér loftslagsmálum. Ætli það hafi ekki verið um svipað leyti og ég byrjaði að hugsa um dýravernd. Það var fyrir um það bil þremur árum. Þá gerðist tvennt. Annars vegar eignaðist vinur minn hund sem ég tók ástfóstri við og hins vegar horfði ég á heimildarmyndina ?Cowspiracy? sem fjallar um samband umhverfis og dýralandbúnaðar. Í kjölfar þess áttaði ég mig á því hve illa við mannfólkið förum með dýr og hve ónauðsynleg sú slæma meðferð er. Dýravernd helst í að mörgu leyti hendur við náttúruvernd svo samhliða þessu kynntist ég umhverfismálum af alvöru og þar með umræðunni um loftslagsvána. Á þessum tíma var umræðan í samfélaginu líka að aukast og líklegt að vinir mínir og kunningjar hafi verið farnir að ræða málin sín á milli.

Og svo að ég varpi næst fram ívið eldfimri spurningu: Telurðu að konur láti sig hamfarahlýnunina frekar varða en karlmenn? Og ef svo er, hvers vegna? (Og í því samhengi, hvað er ?vistfemínismi?, hugtak sem kemur fyrir í ritgerðinni þinni?)

RB: Já, ég held það þótt ég sé almennt ekki hrifin af því að flokka fólk eftir kyni og dæma það út frá því. Það á að minnsta kosti við í mínu nærumhverfi að konur eru duglegri að bregðast við vánni en karlar. Hver ástaðan er veit ég ekki. Líklega hefur það eitthvað að gera með hugmyndir samfélagsins um karlmennsku og kvenleika. Þykir kvenlegt að sýna samúð, vera vandvirkur og samviskusamur? Er karlmannlegt að borða mikið af rauðu kjöti og hugsa mest um eigin hagsmuni?

Vistfemínisminn beitir kenningum sem svipar til kenninga femínismans á samband manns og náttúru. Á sama hátt og femínisti leitast við að gagnrýna og kollvarpa því kerfi að karlmaðurinn drottni yfir konunni þá leitast vistfemínisti við að gagnrýna og kollvarpa því kerfi að maðurinn drottni yfir náttúrunni. Þetta snýst hvorttveggja um að mynda mótspyrnu gagnvart þeirri tvíhyggju, þar sem eitt er æðra öðru, sem fyrirfinnst í samfélaginu.

Þessar kenningar mætti auðvitað nýta til þess að snúa á hvolf þessum hugmyndum sem ég slengdi fram hér að ofan og þvertaka fyrir að nokkuð sé til sem heiti ?kvenlegt? og ?karlmannlegt? þegar kemur að loftslagsmálum.

Ritgerðin þín nefnist ?Frá afneitun til þekkingar?? Finnst þér þekking á loftslagsbreytingum vera nægilega útbreidd í dag? Höfum við siglt út úr tímabili vanþekkingar og/eða afneitunar og inn í tímabil upplýsingar um loftslagsvandann og þau eyðandi áhrif sem hann er farinn að hafa á lífríki jarðar?

RB: Ætli það sé ekki misjafnt. Misjafnt eftir mönnum og misjafnt eftir stöðum. Ég held að mannkynið í heild eigi enn talsvert langt í land enda heyrast enn efasemdaraddir um tilvist hamfarahlýnunar þótt galið sé. Ég held við séum á miðri siglingu úti á rúmsjó upplýsingaflæðisins en vona að okkur skoli um síðir upp á rétta strönd.

Hvað gerirðu sem manneskja, í daglegu lífi, til að reyna að breiða út vitund um umhverfismál og reyna að bæta lifnaðarhætti okkar (ef nokkuð)?

RB: Til þess að bregðast við loftslagsvánni verðum við sem samfélag að umturna öllu því sem við höfum tamið okkur og hvort sem einstaklingurinn getur haft einhver áhrif eða ekki þá finnst mér ég ekki geta krafið aðra um að gera breytingar fyrr en ég geri þær sjálf. Svo það er það sem ég hef reynt að gera.

Sem einstaklingar held ég að neyslan sé það sem við þurfum að minnka og helst nánast útrýma. Ég er smám saman að reyna að temja mér það að taka hverja ákvörðum með umhverfið í huga. Það er ekki auðvelt en þó tekst það æ oftar. Ég ætla að nefna þrennt sem ég hef gert til þess að reyna að hafa góð áhrif.

Fyrsta skrefið sem ég tók var að gerast grænkeri. Þótt að veganismi sé í grunninn réttindabarátta fyrir dýrin þá hefur verið sýnt fram á að plöntumiðað fæði er eitt það besta sem einstaklingurinn getur gert til að draga úr kolefnisspori sínu.

Eftir að hafa náð tökum á mataræðinu þá hef ég beint sjónum mínum að fataskápnum því fataiðnaðurinn er einnig afar mengandi og ósanngjarn gagnvart mönnum og dýrum. Núna kaupi ég helst bara notuð föt og það hefur komið mér á óvart hvað það er skemmtilegt. Það er ágætt úrval af verslunum sem selja notaðan fatnað og svo færist það sífellt í aukanna að ofurskvísur borgarinnar haldi fatamarkaði þar sem þær selja af sér spjarirnar.

Þegar ég hef tamið mér lifnaðarhætti sem ég get sætt mig við þá get ég reynt að hafa áhrif á aðra. Þá er komið að því að beita þeirri rödd sem ég hef, þó hún sé lágvær og nái kannski ekki mjög langt. Ég tala við vini og vandamenn um umhverfismál og reyni einnig að beina sjónum mínum að þeim málum í námi og vinnu þegar ég hef tök á því.

Ég er þó langt því frá að vera fullkomin. Ég á enn langt í land með að lifa fullkomlega umhverfisvænum lífsstíl, enda held ég að maður komist aldrei hjá því að skaða umhverfið á einhvern hátt, að minnsta kosti meðan við búum við þá samfélagsgerð sem við þekkjum.

Í ritgerðinni skrifarðu: ?Fréttamenn búa til sjónvarpsefni sem selst, efni sem höfðar til fólks, ekki efni um óþægilegan sannleikann.? Þau orð vísa reyndar í tiltekið samhengi innan ritgerðarinnar, sem er skáldsagan Flight Behaviour eftir Barböru Kingsolver, en þó stappar tilvitnunin oft ansi nærri sannleikanum í raunveruleikanum (þó það sé sem betur fer aðeins farið að breytast).

Hvert sækirðu þér sjálf helst fróðleik, ef frá er talinn skáldskapurinn, um loftslagsmál?

RB: Ég verð að viðurkenna að ég sæki mér fróðleik, og ekki síður innblástur, í alls kyns léttmeti í stað þess að leggja í lestur þungra fræðigreina og skýrslna. Ég reyni í orðsins fyllstu merkingu að heilaþvo sjálfa mig með því að umkringja mig röddum sem ég tel vit vera í og vona að það haldi mér á réttri braut. Ég fylgist með áhrifavöldum á netinu sem rétt eins og ég eru að fikra sig í átt að umhverfisvænni lífsháttum, horfi á heimildarmyndir sem fjalla um vána og hlusta á hlaðvarpsþætti þar sem rætt er við fræðimenn og aðra sem hafa vit á málunum og geta sagt frá þeim á mannamáli. Eins hef ég gerst meðlimur í nokkrum Fésbókarhópum þar sem gagnlegum ábendingum og áhugaverðum greinum er deilt.

Auðvitað er hættan sú að maður fái rangar upplýsingar með þessari aðferð en á móti kemur að maður er sífellt með hugann við vandamálið og stöðugt að læra eitthvað nýtt. Þannig læri ég meðan ég skrolla niður Instagram í strætó á leiðinni í vinnuna eða fyrir framan sjónvarpið fyrir háttinn. Þessi aðferð hefur reynst mér vel þótt ég vonist til þess að vera duglegri við að kynna mér málin frá grunni framvegis.

Hvernig sérðu Ísland fyrir þér árið 2050? Stefnum við í rétta eða ranga átt?

RB: Það fer eftir dagsforminu hvernig ég svara þessari spurningu. Suma daga hef ég óbilandi trú á því að okkur Íslendingum takist að taka stór og mikilvæg skref í rétta átt hraðar en margar aðrar þjóðir. Aðra daga fyllist ég vonleysi og tel næsta víst að Ísland verði sokkið í sæ og engu verði viðbjargandi. Flesta daga tel ég þó að við stefnum í rétta átt, bara alltof hægt.

Lumarðu á ábendingum handa fólki sem vill lesa loftslagsbreytingabókmenntir? Það er oft svo erfitt fyrir okkur á norðlægum slóðum að sjá og skynja loftslagsbreytingarnar ? kjörbúðirnar eru enn fullar af mat og líf okkar breytist ekki tilfinnanlega (nema hvað slegin eru hitamet, sem gleðja marga) ? en kannski getur skáldskapurinn sýnt okkur breytingarnar í nærmynd, af persónulegri sjónarhól? Hvað lesum við til að læra, fræðast og stækka heimsmyndina?

RB: Það kom mér á óvart þegar ég fór að kanna þessa nýju bókmenntagrein hve lítið úrval er til hér á landi af slíkum skáldskap. Ég brá á það ráð að panta bækur erlendis frá til þess að hafa einhvern efnivið í höndum. Flight Behavior eftir Barböru Kingsolver varð fyrir valinu sem meginumfjöllunarefni ritgerðarinnar og henni get ég mælt með heilshugar. Hún er hugljúf, spennandi og skemmtileg auk þess sem hún tekst á við þetta erfiða málefni.

Ég varð ofboðslega glöð þegar ég sá að bókin Blá eftir Maja Lunde hefur verið þýdd yfir íslensku. Þá bók hef ég reyndar ekki lesið enn en hef heyrt að hún sé óhugnanleg og þankavekjandi. Aðrar loftslagsbækur hafa verið fáanlegar hérlendis, t.d. held ég að Solar eftir Ian McEwan hafi verið fáanleg á frummálinu. En ég ætla ekki að lofa því.

Flestar slíkar bækur verða lesendur þó að sækja í erlendis (þá eru rafbækur eða hljóðbækur líklega umhverfisvænasti kosturinn ef maður á tæki til slíks). Þar má nefna bækur á borð við The Year of the Flood eftir Margaret Atwood og The Bone Clocks eftir David Mitchell.

8. ágúst, 2019

sverrir