Eru flugbílar á leið til Reykjavíkur?

Síaukið vandamál í borgum samtímans er bílaumferðin. Öngþveiti, stíflur, glundroði. Svo að ekki sé talað um loftmengunina og hávaðann. Hér er höfuðborg Íslands engin undantekning. Hvað er til ráða?

Jú, hvernig væri að vippa umferðinni bara upp af götunum og senda hana til himna? Frelsa malbikið.

Flest okkar muna eftir Back to the Future-myndunum. Þar þjóta flugbílarnir um háloftin strax árið 2015. Nú er runnið upp árið 2019 og vísindin hafa ekki skilað okkur öðru en litlum, glóandi tilkynningaboxum, sjónvarpsþáttum í streymi og alveg mjög þægilegum strigaskóm. Svekkjandi.

Ekki er þó öll von úti enn: Ef marka má yfirlýsingar Uber, Airbus og Boeing verða flugbílarnir komnir til Japans á næsta áratug. Nefnd fyrirtæki vinna ásamt nokkrum öðrum að því að leiða þá inn í stórborgir á borð við Tókýó svo að vinnuaflið geti svifið geispandi til vinnu á morgnana.

Eitt elsta menningarvígi Evrópu tekur þátt í sama kapphlaupi: París. Vonir standa til að strax árið 2023 verði flugbílarnir komnir inn í almenningssamgangakerfið þar. Aðeins fjögur ár í að stökk og brakandi croissant-mylsna svífi út um niðurskrúfaðar leigubílarúður sem þjóta fyrir Eiffel-turninn. Er þetta virkilega raunhæft?

Já, segja fulltrúar áðurnefndra fyrirtækja; tæknin sé til staðar en áskoranirnar engu að síður mýmargar. Til dæmis þörfin fyrir flugbrautir undir flugtak og lendingu. Og kostnaðurinn er ennþá stjarnfræðilega hár.

Svo eru það öryggisatriðin – munu flugbílar til dæmis klessa inn í stofugluggann hjá okkur?

Önnur atriði eru af félagslegum toga. Hversu háværir yrðu slíkir flugbílar? Samþykkir almenningur þá sjónmengun sem hlýst af fljúgandi farartækjum? Hvernig yrði flugumferðinni háttað? Verða flugskilti á sveimi meðal fuglanna? Hvað um flugumferðarlöggur? Flugumferðarljós? Þyrfti ekki sérstakt flugpróf til að aka flugbíl (og sérdeilis góða sjón)? Eða verða þeir allir sjálfkeyrandi? Spurningarnar eru óteljandi…

Eitt stærsta vandamálið er svo gríðarleg orkukræfni. Eru flugbílar umhverfisvænni en hinir jarðbundnu frændur þeirra og jafnvel heillaspor í baráttunni gegn manngerðri hamfarahlýnun?

Þú skreppur ekkert út í ísbúð á rafknúna flugbílnum þínum

Ein rannsókn hermir að rafknúnir flugbílar séu alls ekki umhverfisvæn lausn í stutta skreppitúra en að þeir myndu á hinn bóginn margborga sig í ferðum sem spanna meira en 35 kílómetra. Jafnvel þó að farartækin sjálf gengju fyrir hreinni orku væri flugtakið svo orkukræft að uppspretta orkunnar, rafmagnsverin, létu frá sér gróðurhúsalofttegundir í stórum stíl. Þú munt því seint taka þér pásu frá því að hámhorfa á Netflix og skjótast út í bragðaref á rafknúna flugbílnum þínum með góðri samvisku.

Miklar vonir eru bundnar við farartæki sem á ensku kallast VTOLs: „vertical takeoff and landing“ vehicles. Fararskjótar sem takast á loft án flugbrautar, til að mynda með loftþrýstingi. Tæknin er komin vel á veg en við megum þó bíða enn um sinn eftir að slík farartæki streymi út úr verksmiðjunum, hvað þá að þau komist í útbreidda notkun hjá sauðsvörtum almúganum.

Sennilegast er að ferðir með rafknúnum flugbílum yrðu eins konar mótvægismöguleiki við lengri reisur með flugvélum, lestum eða gamaldags bílum. Slík þjónusta krefðist ekki jafn tröllaukinna innviða og flugvöllur, lestarteinar eða gatnakerfi og kallar því ekki á jafn mikið rask á náttúrunni.

Við virðumst sem sagt eiga býsna langt í land með að flugbílar svífi hvarvetna yfir höfðum okkar, svo sem í Back to the Future og Blade Runner, en ekki er langsótt að þeir líti brátt dagsins ljós sem eins konar míníflugvélar sem skila fólki lengri vegalengdir, til dæmis á milli borga, og verði þar með eins konar vistvænni (en sjálfsagt rándýr) valmöguleiki til mótvægis við ferðir með öðrum fararskjótum. Vandséð er að flugbílarnir greiði úr umferðaröngþveitum stórborga – en það verður í hið minnsta fróðlegt að fylgjast með þróuninni í París og Japan á næstu árum.

Hátt í tuttugu fyrirtæki eru að reyna að búa til flugbíla. Hér má skoða lista yfir nokkur þeirra.

30. ágúst, 2019

sverrir