Hagar hefja snjalla umhverfisstjórnun með Klöppum

Verslunarfyrirtækið Hagar hefur hafið snjalla umhverfisstjórnun með Klöppum. Grunnlausnin á lausnavangi Klappa, EnviroMaster, hefur verið innleidd hjá öllum níu undirfyrirtækjum samsteypunnar. Klappir fagna þessu skrefi Haga. Markmiðið hjá okkur hefur alltaf verið að hjálpa fyrirtækjum, stærri jafnt sem smærri, að fá heildrænt yfirlit um vistspor sitt og geta þar með lagt sig í líma um að draga úr neikvæðum áhrifum af rekstrinum. Það munar um minna þegar stór samsteypa á borð við Haga sýnir fyrirmyndarfordæmi með þessum hætti.

Hagar er leiðandi verslunarfyrirtæki á íslenskum markaði sem rekur 45 verslanir innan fimm smásölufyrirtækja og fjögur vöruhús. Þá rekur félagið 28 Olísstöðvar um land allt auk 41 ÓB-stöð. Það er afar jákvætt fyrir samfélagið þegar samsteypa af slíkri stærðargráðu tekur umhverfismálin föstum tökum og þrýstir um leið á aðra um að gera betur.

Baksagan að baki innleiðingu umhverfishugbúnaðar Klappa hjá Högum er afar ánægjuleg. Fjögur fyrirtæki sem heyra undir Haga – Bónus, Hagkaup, Olís og Aðföng – höfðu áður innleitt EnviroMaster Klappa í starfsemi sína til að ná betri tökum á umhverfisstjórn rekstursins. Það gaf svo góða raun að Hagar ákváðu að innleiða EnviroMaster einnig hjá hinum fimm dótturfyrirtækum sínum. Verkefnið hefur því vaxið og dafnað á lífrænan og skemmtilegan hátt og samstarfið verið hið ánægjulegasta.

Hagar nýta sér nú stafræna gagnasöfnun hugbúnaðarlausna Klappa til að gera enn fremur svokallaðar ESG-skýrslur, sem á íslensku nefnast UFS-skýrslur (umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir). Þá gerir hvert dótturfyrirtæki sérstakt umhverfisuppgjör í nánu samstarfi við þjónustuteymi Klappa. Aukinn þrýstingur er á fyrirtæki um að senda frá sér áreiðanlegar og traustar upplýsingar um ófjárhagslega þætti rekstursins. Við hlökkum til að vinna með Högum á þeirri vegferð á komandi misserum.

31. janúar, 2020

sverrir