Hin ótrúlega sigurför plastpokans um heiminn

Nýlega urðu þau stórmerku gleðitíðindi að Alþingi samþykkti frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um bann á einnota plastpokum. Lögin taka gildi þann 1. júlí 2019. Framkvæmdin verður á þá lund að fyrst verður óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti án þess að taka endurgjald – gjaldtakan verður sýnileg á kassakvittunum – og frá og með 1. janúar 2021 verður svo spýtt í lófana og bæði óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti við sölukassa og eins að selja þá.

En hvernig í ósköpunum hófst hin fordæmalausa sigurför plastpokans um veröldina vítt og breitt? Hvers vegna lafir hann nú jafnt úr greipum viðskiptavina kjörbúða og skóbúða sem og niður af trjágreinum í Alaska og Víetnam? Það er löng og flókin saga og hér verður aðeins stiklað á stóru.

Plastpokinn varð til fyrir „slembilán“

Pólýtenýn, algengasta plastefnið, var fyrst framleitt á Englandi á fjórða áratug síðustu aldar og það fyrir algjört slembilán. Í feiknastórri enskri efnaverksmiðju, Imperial Chemical Industries (ICI), sem framleiddi fjölvísleg litarefni, sprengiefni, áburð og málningu, römbuðu starfsmenn á efni sem, samkvæmt lýsingum þeirra, líktist helst sykurmolum. Hetja neysluhyggju 20. aldarinnar var mætt til leiks.

Breski herinn notfærði sér uppgötvunina í seinni heimsstyrjöldinni og pólýtenýn var, líkt og svo mörg önnur nýlunda og tækni, þróuð enn frekar meðan á stríðinu stóð. Engan starfsmanna efnaverksmiðjunnar ensku óraði þó fyrir útbreiðslu plastefnisins á næstu áratugum.

Innreið plastpokans í íslenskt neytendasamfélag

Á næstu áratugum hreiðraði plastið hægt og bítandi um sig inni á heimilum óbreyttra borgara, meðal annars í pokaformi. Ísland var þar engin undantekning. Einar fyrstu rituðu heimildir um notkun plastpoka á Íslandi eru frá því snemma á sjötta áratuginum. Í Þjóðviljanum, 18. nóvember 1953, birtist til að mynda fræðandi klausa undir fyrirsögninni „Plastpoki í stað innkaupanets“. (Við lestur hinna tilvitnuðu orða er rétt að hafa í huga að árið 1953 voru það vitaskuld einungis konur sem keyptu í matinn.)

Þær konur sem hafa vanið sig á að nota innkaupanet geta ekki án þeirra verið, en þó lítur út fyrir að plastpokinn ætli að verða innkaupanetunum skæður keppinautur. […] [Plastpokinn] er léttur í meðförum og rúmgóður. Annar kostur, sem er mikils virði í norðlægu loftslagi, er að plastpokinn er vatnsheldur. Ef rigning skellur á, þegar maður er úti að versla, er hægt að stinga handtöskunni og öllum pinklunum niður í plastpokann og það vöknar ekki vitund. Bréf eða blöð, sem rennblotna í innkaupaneti, eru vel geymd í plastpoka.

Plastpokinn var greinilega á milli tannanna á fólki árið 1953. Í „Heimilisþætti“ Þjóðviljans, þann 12. ágúst sama ár, er spjótunum beint sérstaklega að framtíðarþegnum íslenska þjóðveldisins:

Plast er hægt að nota til margs og [eftirfarandi] tillögu geta skólabörn ef til vill notfært sér. Á myndinni er sýnt plasthylki sem ætlað er utan um eina eða tvær bækur, svo að hægt er að bera þær milli húsa án þess að þær skemmist. Hægt er að geyma hlífina í vasanum og þá er maður ævinlega viðbúinn vondu veðri þótt maður sé með bækur í höndunum.

Þörf ábending, enda þekkja íslenskir lestrarhestar það einum of vel hversu örðugt getur reynst að ferja lesefni á prentformi milli húsa í íslensku veðurfari! Í „Heimilisþætti“ Þjóðviljans, 1. desember 1953, fá lesendur Þjóðviljans þessa spaugilegu ábendingu um hárgreiður og þrifnað:

Plastpokinn er reyndar mjög hentugur því að það kemur stundum fyrir, þegar maður greiðir sér á ókunnugum stað, að maður veit ekki hvar maður á að losa sig við hár sem losna af manni um leið. Það er sjaldnast hægt að fleygja slíku á gólfið og óskemmtilegt er að þurfa að láta háruga greiðu niður í tösku. Ef greiðan er geymd í plastpoka er hárunum óhætt þar, og það er auðvelt að gera hann hreinan þegar heim kemur.

Slagurinn á milli bréfpokans og plastpokans

Fljótlega áttuðu menn sig einnig á því að plastpokar hentuðu ekki aðeins vel til að geyma hárflóka þess sem „greiðir sér á ókunnugum stað“ heldur einnig til að ferja matvörur heim úr kjörbúðinni. Árið 1965 fékk sænska fyrirtækið Celloplast einkaleyfi fyrir pólýtenýn-plastpoka með haldi og fljótlega upp úr því tók plastpokinn að ryðja sér til rúms í matvöruverslunum og leysa strigapoka og innkaupanet af hólmi. Árið 1979 hafði plastpokinn tekið yfir um 80% af pokamarkaðnum í Evrópu.

Sigurganga plastpokans var þó, líkt og öll æsileg ævintýri, þyrnum stráð. Til að mynda stóð bréfpokinn lengi vel fyrir hetjulegri andspyrnuhreyfingu í Bandaríkjunum. Það líkaði hagsmunaaðilum plastpokans illa. Árið 1985 stofnaði Flexible Packaging Association (FPA) ráðgjafanefnd sem bar hið heillandi nafn Plastic Grocery Sack Council. Ráðist var í mikla herferð í því skyni að knésetja bréfpokann og ýta stórmörkuðum í átt að aukinni plastpokanotkun. Merkilegt nokk, fyrst voru neytendur ginntir með loforðum um endingargildi plastpokans. Nota mætti plastpoka með margvíslegum hætti og það aftur og aftur og aftur… Síðar glöggvuðu kænir viðskiptamenn sig hins vegar á því að miklu gróðavænlegra væri að hafa pokana ekki of sterkbyggða og selja neytendum nýja poka, helst marga í senn, í hvert skipti sem haldið væri út í búð að kaupa mjólk og appelsínur.

Hugmyndin um „einnota“ vörur

Mannfólki er ekki í blóð borið að sóa hlutum. Það þurfti að ráðast í skipulegt átak til að kenna okkur þá list og kannski var það, þegar öllu er á botninn hvolft, stóra verkefnið á 20. öldinni og helsta arfleifð hennar: að breyta okkur öllum í umsvifamikla neytendur sem víla ekki fyrir sér að fylla heilan plastpoka af rusli eftir eina máltíð. Forfeður okkar hefðu ekkert botnað í slíkri hegðun, hvað þá skilið orðið „einnota“.

Hneppt inn í þessa hugsun er vitaskuld sú tilhneiging neyslusamfélagsins að smætta okkur öll niður í hálfgerð eilífðarbörn. Ábyrgðin er ekki okkar, það kemur alltaf einhver annar – pabbi eða mamma – og hreinsar til eftir okkur. Ruslatunnan, sem við fyllum auðveldlega í hverri viku, verður tæmd fyrir okkur og sorpið flutt úr sjónmáli. En það hverfur að sjálfsögðu ekki. Sama hvert ferðast er í dag – upp á hæstu fjallstinda, niður í fjöru, lengst út á ballarhaf – alls staðar bíða plastpokarnir okkar, fljótandi eða flögrandi.

Hugmyndin um „einnota“ vörur er ekki gömul. Það tók mikið starf og einskæra þrjósku að fá hana til að skjóta rótum í mannlegu samfélagi. Með ötulu auglýsingastarfi var fólki smám saman innrætt að mögulegt væri að henda fjöldaframleiddum vörum daglega. Brátt var slík sóun álitin samfélagslega ásættanleg, og loks – og þar náðist fullnaðarsigurinn – jafnvel óumflýjanleg. Nýlegar rannsóknir herma að um 5 billjarðar plastpoka séu notaðir árlega! Það er erfitt að ná utan um slíkar tölur.

Í Postmodernism, or the Cultural Logic of Late Capitalism (1991) ritar Fredric Jameson (þýðing er mín): „Í dag virðist það okkur miklu nærtækara að sjá fyrir okkur hrakandi ástand og loks dauða jarðar og náttúru en endalok síðkapítalismans[.]“ Plastpokinn er stoltur fulltrúi slíkrar hugsunar. Frekar þekjum við engi og tún, skóga og fjöll, og fyllum iðrin í lífverum hafsins, með plasti en að hætta að nota það. Eða hvað? Hvernig gætum við líka mögulega lifað án plastpokans? Hvað setjum við til að mynda í ruslatunnurnar okkar? Í dag eru sóun og einnota vörur órjúfanlegur hluti af daglegu lífi okkar, og eins af hugsun og starfi vöruhönnuða.

Horfir loks til breytinga?

Árið 2018 var talið að um 160.000 einnota plastpokar væru notaðir í heiminum hverja einustu sekúndu! Ofan á það bættust svo auðvitað drykkjarflöskur úr plasti, skyndibitaumbúðir úr plasti, plastumbúðir utan um raftæki og annan varning sem oftar en ekki er gerður úr plasti…

Plastpokinn er útbreiddasti sendiherra okkar. Niðurfallsrör, skorsteinar, þakrennur og ufsagrýlur, alls staðar leikur hið fislétta plast sirkúslistir sínar, svo yndislega liðugt og sveigjanlegt. Plastið er drottnari annarra gerviefna á jörðinni, hið vængjaða goð neysluhyggjunnar. Bæði vindhelt og vatnshelt og í raun kannski ósigrandi. Fegurð þess er í senn ógnvekjandi og ómótstæðileg. Plastpokinn hreiðrar um sig í iðrum sjávarspendýra og þekur fuglshreiður. Hann bíður átekta í eldhússkúffunum heima hjá okkur. Hann umvefur hádegisverðinn okkar og gleypir grasið í garðinum að loknu háværu striti sláttuvélarinnar. Hann þenur sig út í ruslatunnuna á baðherbergi hverfiskaffihússins og hámar skyldurækinn í sig kúkableyjur og hægðir hunda.

Með plastpokabanninu fylgir Ísland með lofsverðum hætti í fótsporin á nokkrum ríkjum sem einnig hafa bannað plastpokann á síðustu árum. Fyrsta landið til að ríða á vaðið var Bangladess árið 2002. Þar voru plastpokarnir teknir að stífla holræsiskerfi og valda gríðarlegu tjóni. Nýlegra dæmi væri Frakkland, sem gerði þennan góðkunningja okkar neytenda útlægan úr matvöruverslunum þann 1. júlí 2016. En það er Afríka sem er í fararbroddi: Kenýa, Rúanda, Morokkó. Ástæðan? Jú, í nefndum löndum var plastpokamengun orðin svo yfirgengileg að hinir þindarlausu farþegar vinds og hafs bókstaflega vöfðu heilu trén inn í skrjáfandi faðm sinn og ollu slíkum usla, sjónmengun og heilsuspillandi áhrifum að stjórnvöldum var nauðugur einn sá kostur að taka af skarið. Í Kenýa hefur verið vísað til plastpokans sem „hins afríska blóms“.

Við hjá Klöppum fögnum því að Alþingi hefur lagt sitt af mörkum til að sporna gegn því að öll plánetan okkar verði, innan fárra áratuga, vafin inn í plast. En betur má ef duga skal. Hættum að nota plastpoka og notum nýja frumvarpið sem innspýtingu í átt að ennþá umhverfisvænni lifnaðaráttum. Hið góða líf er ekki sóun og ábyrgðarleysi heldur ást og hlýja gagnvart umhverfi okkar, jörðinni sem við tilheyrum, jörðinni sem við erum hluti af. Ábyrgðin er okkar allra saman – þjóðríkja, fyrirtækja, einstaklinga.

Hvernig fannst þér þessi grein? Lumarðu jafnvel á ábendingum um sögu plastpokans eða öðrum athugasemdum? Endilega sendu okkur línu!

24. maí, 2019

sverrir