Hvað er hrein endurnýjanleg orka?

Endurnýjanleg orka er sú orka sem rekja má til orkulindar sem endurnýjast náttúrulega og klárast ekki þó af henni sé tekið. Með öðrum orðum kemur orka í stað þeirrar sem við sækjum úr auðlindinni. Um hvað fellur með réttu þar undir getur fólk auðvitað þrætt fram og aftur. Á alþjóðavettvangi hafa menn þó sammælst um að vatnsorka, vindorka, sólarorka og haforka séu skýr dæmi um endurnýjanlegar orkulindir sem einnig geta talist „hreinar“.

Margir láta sig dreyma um heim þar sem öll orkan sem við notum er hrein og endurnýjanleg. Eins og sakir standa erum við þó afar fjarri því takmarki. Við reiðum okkur að mestu á olíu, kol og jarðgas, allt dæmi um jarðefni sem teljast til óendurnýjanlegra orkulinda. Við vinnslu slíkra jarðefna endurnýjast auðlindirnar að jafnaði ekki (í skásta falli ofurhægt). Óendurnýjanleg orkulind klárast því smátt og smátt ef gengið er á hana. Til samanburðar telst lífmassi til brennslu, s.s. trjáviður, til endurnýjanlegrar orkulindar ef skóglendi er ræktað jafn hratt og það er höggvið til brennslu, jafnvel þó að það sé ekki gert á sama stað.

Loks er það jarðvarmaorkan eða jarðhitinn, orka sem unnin er úr hita sem verður til djúpt í iðrum jarðar. Um hvort slík orka geti talist endurnýjanleg eru nokkuð skiptar skoðanir. (Hér er fróðleg grein sem fer nokkuð djúpt í saumana á því.) Ísland er á meðal landa sem svala 15% eða meira af orkuþörf sinni með jarðvarmaorku; önnur væru Kosta Ríka, Filippseyjar, El Salvador, Kenýa og Nýja-Sjáland.

3. febrúar, 2020

sverrir