Hvað er hringrásarhagkerfi?

Um daginn stóð ég í eldhúsinu hjá vini mínum, framkvæmdaglöðum og galvöskum náunga sem ekki hikar við að gera upp íbúðir, glíma útbíaður í smurolíu við bílvélar og rækta sitt eigið grænkál í garðinum hjá sér. Það gefur auga leið að slíkum þúsundþjalasmið hugnast sóun illa. Stoltur á svip rétti hann mér kaffibolla og bankaði svo létt með hnúunum í stálhurðina að uppþvottavélinni. Ég sá strax á látbragðinu – hvernig hann glotti út í annað, hallaði sér aftur að eldhússkenknum – að nú væri að hefjast lærdómsrík sögustund.

„Þessi hér er tuttugu ára gömul,“ sagði hann ábúðarfullur og hljómaði eins og um væri að ræða ástkæran fjölskylduvin. „Um daginn bilaði hún, elskuleg. Ég hringdi í búðina og þau sögðu: Uppþvottavél sem er tuttugu ára gömul! Þú verður að henda henni og kaupa nýja. En ég þráaðist við. Hún er bara biluð, sagði ég, í gær virkaði hún eins og smurð, það hlýtur að vera hægt að laga hana? Með semingi gáfu þau mér símanúmerið hjá snjöllum viðgerðarmanni. Ég hringdi í kauða og hann sagði: Tuttugu ára gömul uppþvottavél! Þú verður að kaupa þér nýja, karl minn. Hann hljómaði eins og ég væri eitthvað klikkaður að vilja láta lappa upp á aðra eins antík. Ég þurfti að beita allri minni röksnilld og kænsku til að sannfæra hann um að líta inn í heimsókn.

Daginn eftir steig hann, sterklegur naggur með svarta derhúfu, skeggbrodda og ríkulega skreytt verkfærabelti, þvert á vilja sinn yfir þröskuldinn hjá mér. Ertu alveg viss um að þú viljir ekki bara kaupa þér nýja? spurði hann og tók mig út, tortryggnislegur á svip. Ég vil láta laga þessa, sagði ég harðákveðinn. Jæja þá, sagði hann tók til sinna mála. Korteri síðar hafði hann lagað uppþvottavélina. Korteri síðar! Það þurfti bara að herða einhverja reim. Nú er hún eins og ný.“

Við fengum okkur sopa af kaffinu. Úti var fallegt vorveður, bjart og heiðskírt. Fyrsta lóan var nýmætt til landsins.

„Já, meiri vitleysan,“ sagði ég. „Gott þú gafst þig ekki!“

„Já, svona er þetta, “ sagði vinur minn. „Það er sífellt verið að narra okkur til að kaupa nýtt dót þegar það gamla er fullkomlega boðlegt.“

Framleiða - kaupa - nota - henda - kaupa nýtt

Núverandi auðlindanotkun mannkyns er ósjálfbær. Margir hafa bent á að línulegt hagkerfi samtímans (framleiða – kaupa – nota – henda – kaupa nýtt) sé orðið óboðlegt og fitja þurfi upp á betra kerfi. Ég tók ofangreint dæmi úr lífi mínu til að sýna hvernig neysla og sóun er innbyggð í núgildandi samfélagsgerð okkar og þykir sjálfsögð, jafnvel óumflýjanleg.

Hringrásarhagkerfið, aftur á móti, miðar að því að hámarka verðmæti aðfanga. Það má gera með aukinni endurnotkun og endurvinnslu og áherslu á ný viðskiptalíkön sem byggjast m.a. á samnýtingu og kaupleigu; leigurétti í stað eignarhalds, fatnaði sem fer í safnhauga og bættri vöruhönnun sem auðveldar viðgerðir, t.d. á uppþvottavélum.

Slík umbreyting á hagkerfinu mundi draga mjög úr umhverfis- og heilbrigðisvandamálum. Leitast væri við að halda efnislegum vörum og verðmæti þeirra eins lengi inni í hagkerfishringnum og mögulegt er, sem hlífir umhverfinu við óhóflegum spjöllum, sparar orku og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sú meinloka er hins vegar þrautseig í okkur að síaukin framleiðsla, með tilheyrandi sóun, sé eina von efnahagsins. Sífelld kaup og sala skapi til að mynda fleiri störf. Oftar en ekki er það kolrangt, einkum innan Evrópu; flest framleiðslustörf í verksmiðjum eru láglaunastörf í nokkrum löndum álfunnar eða öðrum heimsálfum. Hringrásarhagkerfið, aftur á móti, gæti sennilega leitt af sér fjöldamörg staðlæg störf í þjónustu og viðhaldi. En það þarf auðvitað að vera öllum í hag að hlutir séu endingargóðir, jafnt neytendum sem framleiðendum og efnhagskerfinu í heild.

Lykilhugmyndin er, sem áður segir, að kollvarpa þurfi kerfi þar sem framleiðandinn hefur hag af því að við, neytendur, hendum sífellt fullboðlegum vörum og kaupum nýjar. Allir, þar með talið framleiðslufyrirtækið, ættu að hafa hag að því að vörurnar endist sem lengst.

Sem hljómar raunar skynsamlega, ekki satt?

Innbyggða úreldingin

Eflaust kannastu einnig við hugtakið innbyggð úrelding? (Á ensku planned obsolescence.) Þar er meðal annars vísað til þess þegar vöruframleiðendur tryggja að vörur þeirrar úreldist með reglubundnum hætti, svo sem með því að vara- eða aukahlutir eru gerðir ófáanlegir. Einnig er hugsanlegt að úreldingin sé fremur huglæg en tæknileg; efnahagsleg eða félagsleg. Vörur síðasta árs verða hallærislegar um leið og nýjungar streyma á markað, jafnvel þó að tæknilega sé um ósköp svipuð tól og tæki að ræða. Að sjálfsögðu viltu ekki verða að athlægi vinahópsins með því að eiga sex ára gamlan síma! Það gefur auga leið að svofelld sjónarmið, sem byggjast líkt og svo margt í hagkerfi nútímans á því að ala undir óöryggi í héralegu brjósti neytandans, eru skilgetin afkvæmi línulegs hagkerfis en passa illa inn í hringrásarhagkerfið.

Stórfyrirtækjum á borð við Dell og Apple hefur lengi verið legið á hálsi fyrir að byggja rekstur sinn á innbyggðri úreldingu. Ef fartölvan þín bilar kostar næstum jafn mikið að gera við hana og kaupa nýja (ef það er þá yfirhöfuð hægt). Þó eru aðrir sem draga í efa slíkar kenningar um vafasamar rekstraraðferðir og augljósan brotavilja fyrirtækja. Skýringuna að baki úreldingunni megi miklu heldur finna í síhertum kröfum neytenda um æ fullkomnari tæki á æ lægra verði. Tæki og aðrar vörur séu framleidd á hraðan og oftar en ekki hroðvirknislegan máta og fyrir vikið verður kostnaðurinn fyrir neytendur í raun miklu hærri en lágt verð einstakrar vöru bendir til. Endurnýja þurfi tækin oftar en ef um endingarbetri (og dýrari) vörur væri að ræða og greikkað væri fyrir viðhaldi á þeim.

Í hringrásarhagkerfi, aftur á móti, er markmiðið að tryggja langan líftíma, hvort sem um ræðir snjallsíma, uppþvottavél eða gæludýrsróbóta, og greikka fyrir viðhaldsþjónustu. Þá er róið að því öllum árum að tryggt sé að neytendur greiði sanngjarnt verð fyrir vörurnar frekar en að þeir séu leiksoppar markaðsbrellna.

Auðvitað eigum við langt í land til að slíkt hagkerfi verði að veruleika. Við þörfnumst stórra breytinga á hugsunarhætti okkar og því hvernig við metum velgengni og skilgreinum eignarétt.

Einn lykilþáttur hringrásarhagkerfisins yrði aukin samnýting og sameignarfyrirkomulag. Almenningsbókasöfn eru dæmi um þjónustu sem er í sameign notenda. Nokkuð er orðið um það í borgum Evrópu að farþegar deili bifreiðum til og frá vinnu. Í Reykja­vík hef­ur verið stofnuð Verkfæra­leiga Reykja­vík­ur (Reykja­vik Tool Li­brary). Hér og þar er hægt að leigja spariföt til að klæðast á árshátíðinni.

Bilaður skeggsnyrtir gengur í endurnýjun lífdaga

Þegar ég dvaldist um alllangt skeið í Mexíkóborg heillaðist ég af því hversu krökk borgin var af alls kyns verkstæðum og skyldri þjónustu. Mexíkó er merkileg blanda af nútímalegri iðnvæðingu og gömlum gildum, sem hlýst að stóru leyti af fátækt stórs hluta íbúanna. Hlutirnir eru nýttir út í hörgul. Á þessum tíma var ég á ferðalagi frá heimili mínu í New York, algjörri andhverfu – konungsríki neyslunnar – þar sem verkstæði eru vandfundin. Ef eitthvað bilar, á maður að kaupa sér nýtt.

Dæmi: Einu sinni bilaði skeggsnyrtirinn minn í New York. (Það er mikilvægt fyrir unga og metnaðarfulla karlmenn að hafa aðgang að góðum skeggsnyrti.) Mér tókst ekki að laga þennan margslungna töfragrip sjálfur og leitaði því, árangurslaust, á netinu að viðgerðarþjónustu. Hvert fer maður með bilaðan skeggsnyrti í New York? Svarið: Þú ferð ekki neitt – þú pantar þér bara nýjan á Amazon, væni minn, og færð hann sendan beint strik heim. Nei, það vildi ég ekki gera.

Loks rambaði ég á eitthvað sem kallaðist Hack Manhattan, samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og halda mánaðarlega fundi þar sem fólk getur komið með alls kyns bilað dót og látið laga það fyrir sig. Þangað hélt ég með skeggsnyrtinn. Fundurinn fór fram á annarri hæð í gamalli brúnsteinsbyggingu á Manhattan og stemningin, fjöldi vinalegs fólks sem hittist einungis í því skyni að hjálpa hvert öðru, hafði yfir sér skringilega glæpsamlegt yfirbragð; þetta var í svo sláandi mótsögn við neysludrifkraftinn í borginni þar sem vörurnar glóðu í búðargluggum og kaupendur flykktust inn og út með úttroðna poka af varningi og sorpið vall upp úr ruslatunnum.

Ég rétti mjóslegnum, kafskeggjuðum manni skeggsnyrtinn – honum hefði ekki veitt af því að bregða tækinu sjálfur á sprett um sína vanga – og hann lappaði upp á tækið á tíu mínútum. Á einungis tíu mínútum! Ég hélt aftur heim, rakaði mig og hafði aldrei litið betur út, feginn yfir því að þurfa ekki að henda slíkum verðmætum að ástæðulausu í ruslatunnuna.

Ég rakti þessa sögu fyrir vini mínum, þvottavélareigandanum, og hann brosti í kampinn og sagði að þetta væri framtíðin. Betri nýting, minni sóun. Hringrásarhagkerfi, sagði hann. Ég fékk ekki séð að slíkt fæli í sér skert lífsgæði; miklu frekar aukin lífsgæði ef eitthvað var.

Síðan tæmdum við úr kaffibollunum okkar og stungum þeim inn í uppþvottavélina, sem þvoði þá af mikilli list og skilaði þeim tandurhreinum aftur upp í hillu.

26. maí, 2020

Sverrir Norland