Hvað eru dauð hafsvæði?

Lífið á jörðinni hófst á því herrans ári… tja, raunar er það ekki vitað, nákvæmlega. Enda ekkert smáræði að fletta hulunni af öðrum eins leyndardómi. Sumar rannsóknir herma að lífrænar eindir hafi borist hingað með geimryki eða loftsteinum, sem bendir þá aftur til þess að lífið á jörðinni sé ekkert einsdæmi. Þar til nýlega var talið að elstu steingervingar sem fundist hafa væru um 3,5 milljarða ára gamlir – þeir uppgötvuðust í Ástralíu – en á síðustu árum hafa þó margir véfengt þær niðurstöður. Hvernig sem því líður er líklegt að líf hafi kviknað „skömmu eftir“ að jörðin myndaðist fyrir um 4,5 milljörðum ára – svo sem nokkur hundruð milljón árum síðar sem er auðvitað aðeins einn fingrasmellur í veraldarsögu alheimsins.

Hitt er aftur óumdeilt mál að þegar jarðneskt líf kviknaði, þá gerðist það, líkt og allir vita, í hafinu. Sjórinn þekur um 70% jarðar og því má segja að þriðja reikistjarna frá sólu, hið brothætta heimili okkar sem fóstrar kraftaverk vitsmunalífsins, sé fyrst og síðast feiknastórt vatnsból. Hversu oft hugleiðum við jörðina á svofelldum forsendum, sem eina gríðarstóra tjörn? Af slíkum sjónarhóli blasir í hið minnsta við að góð heilsa hafsins er forsenda góðrar heilsu jarðarinnar í heild.

Dýr á láði, í legi og lofti sækja stóran hluta fæðu sinnar í hið mikla forðabúr hafsins og plöntusvif sjávar myndar með ljósstillífun um ⅔ alls súrefnismagns á jörðinni. Það er því ógnvænlegt að hugsa til þess að þeim hafsvæðum, sem hafa svo naumt súrefnismagn að sjávarlíf getur ekki lengur þrifist þar, fjölgar nú jafnt og þétt. Vísað er til slíkra sjávarskika sem „dauðra hafsvæða“ og eru þau nú fleiri en fjögur hundruð talsins. Á síðustu fimmtíu árum hefur það vatn í sjónum, sem er súrefnislaust, fjórfaldast að magni, og dauð hafsvæði þanist út um marga milljón ferkílómetra eða um svæði sem jafngildir Evrópu að stærð. Segja má að ógnarstór svæði í hafinu séu hreinlega „að kafna“ – eða séu nú þegar köfnuð. Það er varla neitt sérlega upplífgandi tilhugsun. Hvað kemur til?

Hvernig verða dauðu hafsvæðin til?

Í aldanna rás mynduðust dauð hafsvæði af náttúrulegum orsökum. Á áttunda áratugnum tóku vísindamenn hins vegar eftir því að þeim var tekið að fjölga óhóflega og eins að þau þöndust út. Dauðu hafsvæðin mynduðust við strandlengjuna þar sem sjávarlíf er (eða var í hið minnsta) auðugt og þétt; hundruð borga við sjávarsíðuna hvíla í dag á menguðu, súrefnisvana sjávarvatni. (Stór úthafssvæði, þar sem sjávarlíf er skiljanlega af skornum skammti, eru ekki talin til dauðra hafsvæði; fæstar lífverur þrífast án súrefnis og víðast hvar í hafinu ná hinir frjósömu fingur sólarinnar ekki niður á botn.)

En hvers vegna fjölgar dauðu svæðunum?

Ástæðurnar eru margþættar og flóknar. Að hluta til hlýst þróunin af manngerðri hamfarahlýnun jarðar. Gegndarlaus notkun okkar á jarðefnaeldsneyti leikur þar veigamikið hlutverk; bensín- og díselbruni skilar köfnunarefni (nitri) út í andrúmsloftið og með tíð og tíma skolast það ásamt regndropum út í haf og skerðir súrefnisgildi vatnsins.

Ennþá stærri ástæða eru þó líklega óvistvænir landbúnaðarhættir. Til sjávar berast margvísleg næringarefni, úrgangur frá matvælaræktun, einkum fosfór og nitur, og hleypa af stað ferli sem nefnt hefur verið ofauðgun (e. eutrophication) eða vatnadauði, sem er afar gagnsætt heiti.

Í stað þess að nýtast til dæmis við kornrækt, sem skilar að lokum baguette upp í gogginn á fágaðri Parísardömu eða gagnast hamborgarabrauðinu sem lykst um kjötstykki New York-búa á Nike-strigaskóm, flæða úrgangsefnin á vit ógnarstóra þörungablóma (e. algal bloom), sem mynda slykju á yfirborði sjávarvatnsins, eiturgrænt teppi. Þegar þörungarnir deyja, sökkva þeir svo til botns og lenda á matseðlinum hjá ýmsum örverum sem gleypa þar með í leiðinni og brenna upp súrefni. Afleiðingin er súrefnisþurrð (e. hypoxia) í vatninu. Ofanlýst þróun veit, eins og gefur að skilja, ekki á gott fyrir lífverur sem eru háðar súrefni. Fiskar, krabbadýr og ýmsar aðrar sjávarlífverur neyðast til að flytjast búferlum. Þau sjávardýr, sem ekki eru miklir heimshornaflakkarar, svo sem skeldýr og aðrar lífverur á sjávarbotni, deyja. Yfir taka örverur sem dafna í súrefnislitlu umhverfi og hnappast saman á sjávarbotninum í eins konar dúk sem framleiðir vetnissúlfíð, eitraða lofttegund. Stemningin verður smátt og smátt, eins og þú getur rétt ímyndað þér, heldur drungaleg.

Í súrefnisvana hafsvæðum þrífast, auk örvera, hinar ógeðugu marglyttur, dauðyflislegar og draugalegar verur sem verja ævi sinni í eins konar dái eða dróma og þykja, að mati flestra annarra sjávarlífvera, heldur ólystug fæða og fráhrindandi félagsskapur. Það eru nefnilega ekki einungis sólbrunnir og léttölvaðir sólstrandargestir ásamt stjórnlausum krakkagemlingum sínum sem þykir ami af marglyttum heldur bíður allur fæðuvefurinn hnekki af auknum uppgangi þessara óvinsælu lífvera.

Marglyttur eru gráðugar og háma í sig næringarefni en gefa lítið í staðinn; með öðrum orðum lækka þær næringargildi í sjónum og fækka fæðumöguleikum annarra sjávarskepna þar sem þær hasla sér völl. Einkum háma þær í sig undirstöðunæringuna í sjónum: svifdýr og svifplöntur. Til að bæta gráu ofan á svart gefa marglyttur svo einungis frá sér sykurkennda leðju sem aðeins sýklar láta sér að góðu verða.

Mikil fjölgun marglyttna á síðustu árum veldur vísindamönnum skiljanlega miklum áhyggjum og virðist benda til hnignandi heilsu sjávar. Aukin útbreiðsla þeirra hefur víðtæk áhrif á allt vistkerfið – einnig, og kannski ekki hvað síst, á landi.

Hvað má gera til að sporna við þróuninni?

„Það er ekki hægt að synda í sjónum hérna lengur því það er svo mikið af marglyttum vegna hlýnunar jarðar.“ Þessum orðum beindi tíu ára stelpa til mín um daginn, í setustofu gistihúss á Shodoshima, eyju í Japan; hún horfði djúpt í augun á mér, fullorðinsleg og ábúðarfull, og virtist gera sér fulla grein fyrir alvöru málsins. Mér hálfvegis brá að heyra jafn unga manneskju útskýra fyrir mér breytingar á aðstæðum í hafi með jafn hversdagslegum hætti. Vegna hlýnunar jarðar… Um leið er vitaskuld oggulítið hughreysting fólgin í því að yngstu jarðarbúar velkist ekki í vafa um hver skýringin er. Við fitjum ekki upp á lausnum nema við greinum fyrst, með raunsæjum og skýrum hætti, hvert vandamálið er.

Já, vitneskja og fræðsla eru mikilvæg, en hvað er hægt að gera? Til að mynda hefur margsýnt sig að friðun stórra hafsvæða hefur afar jákvæð áhrif á lífríki sjávarins; fiskstofnar og önnur sjávardýr ná sér aftur á strik innan hins friðaða svæðis, sem svo aftur eflir lífríkið utan friðuðu reitanna vegna samgangs á milli svæða. Sumir vísindamanna og umhverfissinna telja nauðsynlegt að friða minnst þriðjung grynnri hafsvæða nálægt landi, en þar þrífst langmest líf í sjónum (stærsti hluti úthafsins er raunar eyðimörk og hefur alltaf verið).

Þá þarf að stöðva ósjálfbæra veiði sem er að gera út af við fjöldamarga fiskstofna og enn fremur tryggja gott eftirlit með úrgangslosun landbúnaðarfyrirtækja og ýta þeim í átt að vistvænni aðferðum.

Eins og sakir standa myndast dauð hafsvæði hraðar en náttúran þolir. (Aðeins örfá dauð hafsvæði hafa náð sér aftur á strik, til að mynda í Svartahafinu í kjölfar hruns Sovétríkjanna og samdráttar í losun gróðuráburðar út í sjó frá Rússlandi og Úkraínu.)

Lengi tekur sjórinn við, svo hljóðar kunnuglegt máltæki. Lengi, já – en fjölgun dauðu hafsvæðanna er neyðarmerki sjávarins um að nú sé sá tími liðinn. Við þurfum að læra að lifa með hafinu, ekki einungis á því.

21. júní, 2019

sverrir