Hvernig virkar snjöll umhverfisstjórnun með Klöppum?

Á síðastliðnum misserum hafa ýmsir vikið sér að okkur eða sent okkur fyrirspurn og þá leikið hugur á að vita hvað það sé eiginlega sem Klappir gera.

Hvernig virkar snjöll umhverfisstjórnun? Hvernig er hún frábrugðin gamaldags umhverfisstjórnun?

Við ákváðum því að setja saman einfalda grein þar sem við skýrum á mannamáli frá því sem fram fer hér innanhúss hjá okkur.

Klappakerfið í hnotskurn

Fjöldamörg fyrirtæki og stofnanir nota hugbúnaðarlausnir Klappa til að safna saman og koma skipulagi á hvers konar umhverfisgögn sem tengjast rekstri þeirra. Hugbúnaðarlausnirnar okkar gera þeim kleift að streyma saman umhverfisgögnum á sjálfvirkan hátt og ljá þeim jafnframt réttu tólin til að vinna úr gögnunum og deila þeim með hagsmunaaðilum, svo sem stjórnvöldum eða neytendum.

Hugbúnaðarlausnirnar okkar eru í notkun innan allra atvinnugeira – í þungaiðnaði, sjóflutningum, flugi, hjá sveitarfélögum o.s.frv. – og safna meðal annars saman gögnum um eldsneytisnotkun, úrgangsmyndun, rafmagn, notkun á ýmsum efnablöndum, losun lofttegunda og flugferðir starfsfólks. Fyrir vikið fæst heildræn yfirlitsmynd af umhverfisspori stofnunarinnar/fyrirtækisins.

Í því felst hagræðisbyltingin. Í stað þess að vaða þurfi útprentaðar skýrslur upp að hnjám og fínkemba tölvumöppur og skrár í leit að réttu upplýsingunum er þeim streymt jafnóðum inn í eitt miðlægt kerfi. Þannig eru gögnin ævinlega tiltæk og innan handar á nothæfu formi þegar upp koma áskoranir í umhverfismálum. Til að mynda verður leikur einn að setja saman umhverfisskýrslu fyrir hvert rekstrarár með því að nota tilbúin sniðmát Klappa.

Viðskiptavinurinn getur svo nýtt umhverfisgögnin til að a) hagræða í daglegum rekstri (t.d. með því að greina og koma í veg fyrir óþarfa orkunotkun), b) tryggja á áhyggjulausan hátt fylgni sína umhverfislög og c) sýna með gagnsæju móti fram á ábyrgðarfullan, vistvænan rekstur.

Þrjár ólíkar gagnalindir

Umhverfisgögnin, sem við söfnum saman, eiga uppruna sinn í ólíkum gagnalindum.

1) Þjónustuveitur. Við tengjum gagnagrunninn okkar við gagnagrunna hjá þeim ólíku þjónustuveitum sem þú nýtir þér. Hér getur til dæmis verið um að ræða eldsneytissala, veitufyrirtæki og sorphirðuþjónustur. Með því að koma á slíkri tengingu flæða gögnin sjálfvirkt inn í gagnagrunninn í hvert skipti sem slík þjónusta er nýtt.

2) IoT-nemar (Internet hlutanna) og aðrir mælar. Ef þú notar nú þegar vatns- eða orkumæla, tæki sem mæla losun eða annan slíkan búnað getum við tengt slík tól við gagnagrunninn með því að nota API-tengingu.

3) Eldri, fyrirliggjandi skjöl. Það er ekkert mál að nýta eldri gögn sem t.d. eru vistuð í Excel-töflureiknum. Klappakerfið geymir sniðmát fyrir töflureikna sem taka fyrir ólík mengunarefni og byggjast á góðum viðskiptaháttum og stöðlum. Einnig má nota slíka töflureikna til að færa daglega inn umhverfisgögn. Síðan má hlaða slíkum töflureiknum inn í kerfið þegar notandanum hentar.

Frekari útfærslur á þjónustunni

Við bjóðum upp á margs konar frekari útfærslur af Klappa-hugbúnaðinum. Sérsníða má lausnirnar nákvæmlega að þínum þörfum; lýstu fyrir okkur áskoruninni, sama hversu óárennileg hún kann að virðast. Við höfum gaman af því að takast á við óvenjuleg og ögrandi verkefni.

Einstakar vörur hjá okkur eru til að mynda RoadMasterHouseMaster, SeaMaster, LogCentral og Grænskjáirnir okkar, sem eru væntanlegir nú í haust.

Hikaðu ekki við að hafa samband við okkur ef þú vilt fræðast frekar um hugbúnaðarlausnirnar okkar. Hér á síðunni finnurðu svo einnig margvíslegar upplýsingar um vöruúrvalið og þjónustuna. 

9. ágúst, 2019

sverrir